Viðskipti innlent

Brugg­stofa og bjór­búð í húsi bindindis­manna

Ellen Geirsdóttir Håkansson skrifar
Bruggfélagið segir framkvæmdir í fullum gangi.
Bruggfélagið segir framkvæmdir í fullum gangi. Facebook/RVK bruggfélag

Hús bindindissamtakanna I.O.G.T. sem hýsti vinabæ í Skipholtinu var selt snemma á þessu ári. Í húsnæðinu mun nú opna bruggstofa og bjórbúð RVK bruggfélags.

Bingó var starfrækt í Vinabæ frá árinu 1990 eða í 32 ár en síðasta bingóið í Vinabæ fór fram þann 28. Febrúar síðastliðinn. Mikil óánægja ríkti meðal bingóspilara og starfsmanna Vinabæjar með lokunina.

Feðgarnir í Lumex, Helgi Kristinn Eiríksson og Ingi Már Helgason keyptu húsnæðið sem um ræðir að Skipholti 33. Þegar feðgarnir voru spurðir fyrr á árinu hvað tæki við í húsnæðinu virtust borgarbúar mega búast við nýjum samkomustað.

„Ég held að með réttu samstarfsaðilunum og réttum hópi einstaklinga, getum við gert Tónabæ, Tónabíó, Vinabæ, að skemmtilegum samkomustað. Það eru þá meiri listviðburðir, tónleikar, og uppistand eða hvað sem kemur til,“ sagði Ingi Már Helgason.

Nú hefur RVK Bruggfélag sent frá sér tilkynningu á Facebook þar sem kemur fram að framkvæmdir þeirra í húsnæðinu séu í fullum gangi.

„Á næstu vikum færum við okkur upp í anddyri Tónabíós þar sem síðast var Vinabær, með stærri og veglegri bruggstofu og bjórbúð með ferskum nýjum dósum í alfaraleið,“ segir í tilkynningunni.

Bruggfélagið segir Tónabíó hafa verið goðsagnakennt en þeir muni leggja sig fram við endurvekja „forna frægð“ hússins og gera að flottum samkomustað. Bjórinn á staðnum verði bæði á krana og í dósum.

Bruggstofa bruggfélagsins á Snorrabraut muni loka nú á föstudag.


Tengdar fréttir

Fjáröflunin í Vinabæ snerist upp í andhverfu sína eftir hrunið

Guðlaugur Friðgeir Sigmundsson, framkvæmdastjóri Vinabæjar sem stóð fyrir bingókvöldum í Skipholti 33 í rúma þrjá áratugi, segir marga ekki gera sér grein fyrir ástandinu í þjóðfélaginu. Þar séu margir einstæðingar og hluti þeirra sem sótt hafi bingó í Vinabæ hafi varla farið út fyrir hússins dyr, nema til að fara í bingó.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×