Viðskipti erlent

Insta­gram og Tiktok seilast í vin­sældir BeReal

Ellen Geirsdóttir Håkansson skrifar
Hér má sjá írskan stelpnahóp nota BeReal á fótboltaleik.
Hér má sjá írskan stelpnahóp nota BeReal á fótboltaleik. Getty/Stephen McCarthy

Samfélagsmiðillin BeReal hefur notið mikilla vinsælda nú nýverið. Svo miklar virðast vinsældirnar vera orðnar að aðrir samfélagsmiðlar hleypt úr vör nýjum möguleikum innan forrita sem virðast líkjast virkni BeReal.

Franski samfélagsmiðillinn BeReal var stofnaður fyrir tveimur árum síðan en grunnvirkni hans er einföld. Notendur fá tilkynningu sem segir þeim að nú sé kominn tími til að taka mynd af því sem þeir séu að gera þá og þegar.

Þegar notendur ýta á tilkynninguna fara þeir inn í smáforritið sem lætur þá taka mynd. Til þess að sjá myndir vina þinna eða annarra á forritinu þarft þú að taka mynd sjálfur en þegar þú ert kominn inn í forritið hefur þú tvær mínútur til þess að taka myndina.

Hér má sjá hvernig BeReal tilkynning birtist.Rúnar Vilberg

Vinir þínir á forritinu sjá hversu „seinn“ þú varst að taka myndina miðað við hvenær tilkynningin kom og hversu oft þú tókst myndina áður en þú birtir hana. Tilkynningarnar frá forritinu koma einu sinni á dag á handahófskenndum tímum svo notendur ráða litlu um hvaða augnablik úr lífi sínu þeir sýna, vilji þeir sjá myndir vina sinna þann daginn.

Myndirnar sem koma fram í forritinu eru sérstakar að því leitinu til að þær notfæra sér báðar myndavélar símans í einu, þú getur tekið sjálfu og mynd af umhverfinu þínu í einu.

Washington Post greinir frá því að nú hafi samfélagsmiðillinn Tiktok kynnt til leiks nýjan kima samfélagsins sem beri heitið „Tiktok Now.“ Þessi nýja virkni sé þannig að notendur fái tilkynningu einu sinni á dag sem hvetur þá til að taka óuppstillta mynd af sér, á því augnabliki. Virkni Tiktok noti einnig báðar myndavélar símans.

Tiktok sé þó ekki eini miðillinn sem virðist herma eftir BeReal en Meta hafi staðfest að Instagram væri að vinna í svipaðri virkni sem kallist „IG Candid Challenges,“ það væri þó ekki í prófun hjá almenningi enn sem komið er.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.