Viðskipti innlent

Ný raf­magns­flug­vél geri innan­lands­flug kol­efnis­laus

Ellen Geirsdóttir Håkansson skrifar
Nýja vélin er þrjátíu sæta og er sögð henta vel í innanlandsflug. Mynd tengist frétt ekki beint.
Nýja vélin er þrjátíu sæta og er sögð henta vel í innanlandsflug. Mynd tengist frétt ekki beint. Egill Aðalsteinsson

Icelandair mun taka þátt í þróun nýrrar rafmagnsflugvélar en flugfélagið undirritaði viljayfirlýsingu um nýja rafmagnsflugvél í gær við Heart Aerospace. Nýja vélin er sögð geta gert kolefnislaus innanlandsflug að veruleika.

Heart Aerospace vinnur um þessar mundir að nýrri rafmagnsflugvél sem henti vel í innanlandsflug á Íslandi en vélin er þrjátíu sæta tvinnvél. Vélin gangi fyrir sjálfbæru flugvélaeldsneyti ásamt rafmagni en geti gengið einungis fyrir rafmagni þegar um styttri flug er að ræða. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Icelandair.

Drægni vélarinnar sé 200 kílómetrar á rafmagni eingöngu og vonast sé til þess að flugvélin verði komin í notkun eftir sex ár, árið 2028.

Haft er eftir Heiðu Njólu Guðbrandsdóttur, aðstoðarframkvæmdastjóra rekstrarsviðs Icelandair þar sem hún segir Ísland vera í einstakri stöðu til þess að gera innanlandsflug kolefnislaust.

Í kjölfar undirritunar verði Icelandair hluti af ráðgjafanefnd ásamt öðrum í flug-iðnaðinum svo sem flugvöllum og -félögum. Ráðgjafanefndin hafi verið búin til til þess að hægt sé að tryggja að flugvélin henti þörfum notenda.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×