Atvinnulíf

Alltaf að muna að hafa gaman, annars er svo leiðinlegt

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Anna Steinsen, eigandi og þjálfari hjá KVAN, segist hugsa jákvætt og nota húmorinn til að afkasta sem mest og takast á við áskoranir. Anna segir það ekki svo ólíkt að þjálfa ungt fólk eða fullorðna. Allt snúist þetta um að efla einstaklinga og þá þannig að fólk átti sig á því hversu magnað það er.
Anna Steinsen, eigandi og þjálfari hjá KVAN, segist hugsa jákvætt og nota húmorinn til að afkasta sem mest og takast á við áskoranir. Anna segir það ekki svo ólíkt að þjálfa ungt fólk eða fullorðna. Allt snúist þetta um að efla einstaklinga og þá þannig að fólk átti sig á því hversu magnað það er. Vísir/Vilhelm

„Ég hugsa jákvætt og nota húmor, þannig afkasta ég sem mest og tekst á við áskoranir,“ segir Anna Steinsen, einn eiganda KVAN, meðal annars þegar Atvinnulífið sækir hjá henni innblástur og góð ráð um það, hvað kom henni á þann stað sem hún er á í dag.

Í gær og í dag ræðir Atvinnulífið við gestafyrirlesara UAK en opnunarviðburður félagsins hefst klukkan 19.30 í kvöld og er öllum opinn. Viðburðurinn verður haldinn í Veislusalnum í Ráðhúsi Reykjavíkur. Ragnhildur Geirsdóttir, forstjóri Reiknistofu bankanna, mun opna viðburðinn með hugvekju.

Með marga bolta á lofti

Anna er með BA gráðu í tómstunda- og félagsmálafræði. Anna er einn vinsælasti fyrirlesari landsins og á hverju ári heldur hún að jafnaði 150-200 fyrirlestra.

Þá er hún stjórnendamarkþjálfi, heilsumarkþjálfi og jógakennari.

Anna er í meistaranámi í samskiptum og forvörnum hjá HÍ og samhliða þessu öllu saman er hún gift, á fjögur börn, hund og kött!

Anna hefur líka gefið út tvær barnabækur: Blómið og býflugan og Ofurhetja í einn dag. Allur ágóði síðarnefndu bókarinnar rennur til UN Women.

En hvernig ætli Önnu takist að halda svona mörgum boltum á lofti?

Ég hugsa nánast alltaf i lausnum, nenni ekki að velta mér upp úr hlutunum. 

Við finnum lausnir, hvað sem kemur upp. Það eru tækifæri alls staðar ef við opnum augun og erum tilbúin að sjá það. 

Svo er ég mjög orkumikil að eðlisfari, læt yfirleitt bara vaða og hef trú á sjálfri mér.“ 

Ef Anna væri að gefa þrítugu útgáfunni af sjálfri sér góð ráð myndi hún hvetja sig til að láta vaða og ekki hræðast mistök eða útkomu því allt sem við gerum eða upplifum, er reynsla í bakpokkann okkar. Þess vegna eigum við að sporna við öllum ótta. Vísir/Vilhelm

Góðu ráðin til „yngri mín“

Þar sem erindi Önnu í kvöld er ætlað að veita ungum athafnakonum innblástur, báðum við Önnu um að deila því með okkur hvaða góðu ráð hún gæfi yngri útgáfunni ef hún gæti talað við sjálfan sig þrítuga.

Anna segir:

Láttu vaða. Ekki vera hrædd við mistök eða útkomuna. 

Allt er reynsla í bakpokann sem kemur til með að nýtast þér, bæði árangur og mistök….. og gerðu atlögu að því að láta drauma þína rætast. Enginn ótti! 

Mundu svo alltaf að lykilatriði í þessu öllu saman er að hafa gaman…. Annars er svo leiðinlegt.“

Anna segir það hafa haft mikil áhrif á sinn starfsferil að hafa valið að fara í Tómstunda- og félagsmálafræðina í Háskóla Íslands.

Námið hafi haft mótandi áhrif á það hvað hana langaði að gera.

„Að vinna með börnum og unglingum við að bæta sjálfsmynd og sjálfstraust og vinna með menningu í hópum, efla liðsheild. Það er ekkert eðlilega mikilvægt og hefur áhrif á velferð einstaklingsins seinna í lífinu.“

Í dag er Anna einn vinsælasti fyrirlesari landsins sem heldur að jafnaði 150-200 fyrirlestra á ári.

Þá hefur Anna unnið til fjölda verðlauna sem þjálfari á alþjóðavettvangi fyrir einstaklinga og starfsfólk fyrirtækja.

Anna segir vinnuna við að efla styrkleika og leiðtogahæfni hjá fullorðnu fólki ekkert svo ólíka því að þjálfa ungt fólk.

Það snýr líka að því sama; að hjálpa einstaklingum að efla sig og átta sig á því að það er mun magnaðra en það heldur.“

Viðtal gærdagsins má sjá hér.


Tengdar fréttir

Valdeflandi að eiga flottar myndir af sjálfum sér

Þegar Saga Sig, ljósmyndari, leikstjóri og listakona, tekur myndir af fólki, er hún meðvituð um það að myndirnar munu lifa. Oft eru þetta heimildir síðar meir, ekki síst partur af sögu um til dæmis fólk í stjórnmálum eða rithöfunda.

Ómetanlegt að geta þegið ráð frá sterkum leiðtogum

„Fræðslan nýttist mér beint inn í mín störf hjá Men&Mice þar sem ég fékk snemma tækifæri til að þróast í starfi og þar kom reynslan úr stjórnarstarfi félagsins ekki síður að góðum notum. Enn fremur gaf UAK mér sterkt tengslanet, sem hefur leitt af sér ýmis tækifæri sem ég efa að hefðu annars staðið mér til boða,“ segir Sigyn Jónsdóttir, VP of Customer Care hjá Men & Mice um það hvernig henni fannst félagsskapurinn UAK, Ungar athafnakonur, nýtast sér með beinum hætti á sinni framabraut.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.