Innherji

Íslensk félög fá meira vægi í vísitölum FTSE

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Íslenski hlutabréfamarkaðurinn mun færast að fullu upp í flokk nýmarkaðsríkja í þremur jafn stórum skrefum.
Íslenski hlutabréfamarkaðurinn mun færast að fullu upp í flokk nýmarkaðsríkja í þremur jafn stórum skrefum.

Íslensk fyrirtæki verða fleiri og fá meira vægi í vísitölum FTSE Russell en áður var búist við. Forstjóri Kauphallar Íslands segir að aukið vægi í vísitölunum geti þýtt meira innflæði af erlendu fjármagni inn á hlutabréfamarkaðinn.

Í byrjun apríl á þessu ári tilkynnti FTSE um það að íslenski hlutabréfamarkaðurinn myndi fara upp í flokk nýmarkaðsríkja (e. Secondary Emerging Markets) hjá vísitölufyrirtækinu í september næstkomandi en við það munu skráð félög hér á landi komast í sigti margfalt stærri hóps erlendra fjárfestingarsjóða. Íslenski markaðurinn var áður flokkaður sem vaxtarmarkaður (e. Frontier Market) hjá FTSE frá því í september 2019.

Samkvæmt upplýsingum frá Kauphöllinni er áætlað að 15 íslensk félög komist í vísitölur FTSE en í mars var áætlað að þau yrðu 14 talsins. Þá verða íslensku félögin sett í hærri stærðarflokk en áður var búist við. Þrjú íslensk félög eru nú flokkuð sem stór en voru engin í mars og sjö sem meðalstór en voru tvö í mars. Vægi Íslands í Emerging-vísitölunni hefur um það bil tvöfaldast frá áætluninni í mars.

„Það er mjög ánægjulegt að sjá aukið vægi íslenskra félaga í vísitölu FTSE, sem gefur markaðnum og ekki síst félögunum aukinn byr og meiri sýnileika núna í aðdraganda gildistöku 19. September;“ segir Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar.

Sérfræðingar á fjármálamarkaði höfðu áður talið að innflæðið frá vísitölusjóðum sem fjárfesta í samræmi við samsetningu vísitölunnar geti verið samanlagt í kringum 50 til 60 milljarðar króna. Nú þegar ljóst er að íslensku félögin fá meira vægi í vísitölu FTSE gæti það innflæði orðið enn meira.  

„Aukið vægi gæti þýtt aukna erlenda fjárfestingu og þar með tækifæri fyrir skráð félög. Þó að erfitt sé að segja til um umfangið þá finnum við fyrir sífellt auknum áhuga erlendra aðila,“ segir Magnús.

Íslenski hlutabréfamarkaðurinn mun færast að fullu upp í flokk nýmarkaðsríkja í þremur jafn stórum skrefum á tímabilinu frá september næstkomandi og til marsmánaðar á næsta ári.

Arion banki, Marel og Íslandsbanki eru félögin sem verða flokkuð sem stór í vísitölum FTSE. Þá koma Iceland Seafood International, Sýn og Origo ný inn í vísitölurnar en fasteignafélögin Reginn og Eik detta út vegna þess að þau uppfylltu ekki kröfur vísitölufyrirtækisins um seljanleika.

„Breytingarnar frá því að FTSE birti síðast lista yfir þau félög sem áætlað er að verði í vísitölunni, sýna líka að skráð félög geta gripið tækifærið sem felst í FTSE flokkuninni með því að styðja við seljanleika hlutabréfa sinna. Við sjáum þannig breytingar á listanum frá því hann var síðast birtur, m.a. á grundvelli seljanleika,“ segir Magnús.

Upphaflega var gert ráð fyrir því að Síldarvinnslan yrði á meðal þeirra félaga sem færu inn í vísitölurnar. Upplýsti FTSE hins vegar um að það Síldarvinnslan hefði verið tekin út úr þeim hópi vegna þeirra laga sem gilda um fjárfestingar erlendra aðila í sjávarútvegi hér á landi. Lögin setja verulegar skorður á eignarhald þeirra í fyrirtækjum sem stunda fiskveiðar í efnahagssögu Íslands.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×