Klinkið

Talað í kross í peningastefnunefnd

Ritstjórn Innherja skrifar
Ásgeir Jónsson og Gylfi Zoega
Ásgeir Jónsson og Gylfi Zoega Samsett mynd

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri vakti athygli á því að „nánast engir“ erlendir sjóðir væru á meðal eigenda að íslenskum ríkisbréfum. Samkvæmt tölum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er algengt að hlutdeild erlendra sjóða í ríkisskuldabréfum nýmarkaðsríkja sé á bilinu 10 til 30 prósent. Á síðasta áratug sveiflaðist hlutfallið á Íslandi á milli 15 til 20 prósenta en það lækkaði snarplega á síðari hluta árs 2020 þegar umsvifamiklir fjárfestingasjóðir á borð við Bluebay Asset Management seldu öll sín bréf.

Í lok júlí nam eign erlendra fjárfesta í ríkisbréfum um 56 milljörðum, eða sem jafngildir um 5,5 prósentum af öllum útgefnum slíkum bréfum ríkissjóðs í krónum. Að mati seðlabankastjóra er „óheppilegt“ að hlutdeild erlendra sjóða sé orðin hverfandi lítil og hann benti á að allir erlendir sjóðir sem sýna því áhuga að fjárfesta á íslenskum skuldabréfamarkaði væru fyrst og fremst að „veðja á sterka undirliggjandi efnahagsstöðu“ landsins.

Ummælin ríma við það sem kom fram í fréttabréfi sem sjóðstjóri Bluebay sendi á viðskiptavini félagsins í byrjun maí á þessu ári, skömmu eftir kaup sjóðsins 20 ára löngum íslenskum ríkisbréfum. Þar kom meðal annars fram að fyrirtækið teldi að Ísland gæti orðið þekkt sem „Sviss norðursins“ þegar litið væri til sparnaðarstigs og fjölda annarra mælikvarða. „Horft fram á veginn sjáum við Ísland sem AAA land,“ skrifaði Mark Dowding, yfirfjárfestingarstjóri Bluebay í bréfinu.

Jafnvel þó að hlutdeild erlendra sjóða sé mjög lág, bæði í sögulegu samhengi og í samanburði við önnur nýmarkaðsríki, eru ekki allir nefndarmenn peningastefnunefndar á sama máli og Ásgeir. Gylfi Zoega nefndarmaður skrifaði grein í Vísbendingu fyrr í sumar þar sem hann lýsti yfir áhyggjum af því að „kvikt fjármagn“ leitaði inn í krónuhagkerfið, þ.e.a.s. að fjárfestar keyptu innlend skuldabréf til að hagnast á vaxtamun. Að sögn Gylfa gæti Seðlabankinn þurft að grípa til sérstakrar bindisskyldu á fjárfestingar erlendra sjóða í innlendum skuldabréfum.

Hin sérstaka bindiskylda á fjármagnsinnstreymi á skuldabréfamarkað var sett á í júní 2016 með það að markmiði að tempra og hafa áhrif á samsetningu innstreymis erlends fjármagns á innlendan skuldabréfamarkað. Bindisskyldan, sem hafði lengst af verið 40 prósent, var afnumin í mars 2019.

En þrátt fyrir að vaxtamunur Íslands við sum viðskiptalönd hafi hækkað nokkuð síðustu misseri þá er hann hins vegar enn umtalsvert lægri gagnvart Bandaríkjunum heldur en hann var á árunum 2015 og 2016 þegar erlendir sjóðir fjárfestu í íslenskum ríkisbréfum í talsverðum mæli. Með hliðsjón af vaxtamuninum eins og hann er í dag og hverfandi hlutdeild erlendra sjóða má velta fyrir sér hvort ofuráhersla á vargætni sé skynsamleg á þessum tímapunkti.


Klinkið er vettvangur Innherja þar sem dregin er upp mynd og veitt innsýn í bakherbergi viðskipta, stjórnmála og atvinnulífs á landinu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.×