Erlent

Neyðar­á­standi lýst yfir víða í Pakistan

Bjarki Sigurðsson skrifar
Alls hafa 33 milljónir manna þurft að yfirgefa heimili sín í Pakistan.
Alls hafa 33 milljónir manna þurft að yfirgefa heimili sín í Pakistan. AP/Zahid Hussain

Hamfaraflóð í Pakistan hafa nú dregið tæplega þúsund manns til dauða síðan í júní. Flóðin eru þau mestu í seinni tíð og þykja sambærileg gríðarlegum flóðum sem urðu í landinu 2010.

Staðan er einna verst í suðurhluta Pakistan, þar sem heilu byggingarnar hafa þurrkast út í ofsafengnum vatnavöxtum. Þúsundum hefur nú verið skipað að flýja heimili sín vegna flóðanna og neyðarástandi víða verið lýst yfir. Flóðin hafa einnig haft áhrif á nágrannaþjóðir Pakistan, til dæmis Íran, Indland og Afganistan.

Í gær biðlaði forsætisráðherra Pakistan, Shehbaz Sharif, til annarra þjóða heims að veita pakistönsku þjóðinni aðstoð. Samkvæmt The Guardian hafa yfir 33 milljónir manna þurft að yfirgefa heimili sín vegna flóðanna.

Ekkert aðgengi er að heilu svæðunum í Pakistan vegna flóðanna og því kemst fólk hvorki til svæðanna né frá þeim. Aðstæður eru verstar í Balochistan- og Sindh-héröðunum.

Sameinuðu þjóðirnar hafa ákveðið að senda 160 milljónir dollara, rúmlega 22 milljarða íslenskra króna, til Pakistan til að aðstoða þjóðina.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×