Innherji

„Svört verð­bólgu­spá“ SÍ fór öfugt ofan í markaðinn

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Markaðurinn er enn að meðtaka verðbólguspá Seðlabankans að sögn viðmælenda. 
Markaðurinn er enn að meðtaka verðbólguspá Seðlabankans að sögn viðmælenda.  VÍSIR/VILHELM

Úrvalsvísitala Kauphallarinnar hefur lækkað um rúmlega eitt prósent í dag og ávöxtunarkrafan á styttri óverðtryggð ríkisbréf hefur rokið upp eftir að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands birti ákvörðun sína um að hækka vexti um 75 punkta. Lítilleg hækkun á Marel, sem vegur þungt í vísitölunni, hefur vegið upp á móti töluverðum lækkunum hjá öðrum skráðum félögum. 

Vaxtaákvörðunin var í samræmi við væntingar – meirihluti svarenda í könnun Innherja spáði hækkun upp á 75 punkta eða meira – en á kynningarfundi í morgun kom fram í máli greinenda frá viðskiptabönkunum að harður tónn hefði einkennt yfirlýsingu nefndarinnar. 

„Verðbólguhorfur hafa því versnað enn á ný sem endurspeglar töluvert kröftugri vöxt innlendrar eftirspurnar en gert var ráð fyrir í maí, horfur á hægari hjöðnun verðhækkana á húsnæðismarkaði og lakari verðbólguhorfur í helstu viðskiptalöndum,“ sagði í Peningamálum sem Seðlabankinn gaf út samhliða vaxtaákvörðuninni.

Þá hefur ávöxtunarkrafa ríkisskuldabréfa á styttri endanum hækkað töluvert eftir vaxtaákvörðunina, eða um 36 punkta á eins árs bréfum (RB23) og 11 punkta á tveggja ára bréfum (RB24), en veltan með þau bréf hefur numið um 1.700 milljónum króna. Krafan á önnur óverðtryggð ríkisbréf, sem til lengri tíma, hefur einnig hækkað nokkuð í talsverðum viðskiptum í Kauphöllinni. 

Viðmælendur Innherja á fjármálamarkaði furða sig á „svartri verðbólguspá“ Seðlabankans sem er sögð ansi langt frá væntingum markaðsaðila en sumir áttu von á mildari tón frá bankanum í kjölfar lækkandi hrávöruverðs og vísbendingum um kólnandi fasteignamarkað. Samkvæmt spá Seðlabankans á verðbólga eftir að aukast enn frekar og fara upp í 10,8 prósent á fjórða ársfjórðungi áður en hún hjaðnar smám saman. Væntingar markaðarins hafa hins vegar verið þær að verðbólgan toppi í næsta mánuði í kringum 10 prósent.

Bréf Iceland Seafood International lækkað mest það sem af er degi, alls um 4,7 prósent, en á eftir sjávarútvegsfélaginu koma Eik, sem hefur lækkað um 3,5 prósent, og Eimskip, sem hefur lækkað um 3,25 prósent. Eina hækkun dagsins er hjá Marel sem eins og áður sagði vegur þungt í vísitölunni. Gengi hátæknifyrirtækisins hefur hækkað um 0,73 prósent. 

„Ljósi punkturinn í spám SÍ fyrir hlutabréf er að bankinn er að spá mjög kröftugum hagvexti næstu misserin og engum líkum á kreppuverðbólgu sem er auðvitað algjör bannhelgi fyrir hlutabréfamarkaði,“ segir einn viðmælandi.

Í uppfærðri þjóðhagsspá Seðlabankans, sem er birt í Peningamálum, kemur fram að horfur séu á tæplega sex prósenta hagvexti í ár en í fyrri spá bankans frá því í maí var gert ráð fyrir um 4,8 prósenta hagvexti.

Þetta er fjórða vaxtahækkun bankans frá áramótum og hafa vextirnir það sem af er ári verið hækkaðir um samanlagt 3,5 prósentur. Meginvextir Seðlabankans hafa núna ekki verið hærri frá því í ágústmánuði árið 2016.

Tólf mánaða verðbólga mældist 9,9 prósent í júlí en án húsnæðis nemur hún 7,5 prósentum. Vísbendingar eru um að tekið sé að hægja á miklum verðhækkunum á íbúðamarkaði en húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 1,1 prósent í síðasta mánuði – nokkuð minna en markaðsaðilar höfðu búist við – og á síðustu tólf mánuðum er það því upp um 25,5 prósent.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×