Innherji

SKEL vill gera Orkuna og Skeljung skráningarhæf

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Orkan er eitt af stærstu smásölufyrirtækjum landsins.
Orkan er eitt af stærstu smásölufyrirtækjum landsins. VÍSIR/VILHELM

SKEL fjárfestingafélag hefur ákveðið haga rekstri Orkunnar og Skeljungs með þeim hætti að félögin verði skráningarhæf á næstu þremur árum. Þetta kemur fram í nýbirtu árshlutauppgjöri félagsins.

SKEL, sem áður hét Skeljungur, hagnaðist um 1.597 milljónir króna á öðrum ársfjórðungi samanborið við 292 milljóna króna hagnað á sama fjórðungi í fyrra. Þar af nam söluhagnaður fasteigna 1.392 milljónum. Í fjárfestakynningu uppgjörsins segir að SKEL hafi sett metnaðarfull markmið innri og ytri vöxt t.d. hjá Orkunni og Skeljungi. Ætlunin sé að gera þau skráningarhæf á næstu þremur árum.

„Mikil tækifæri eru til ytri vaxtar, bæði með minni og stærri einingum sem falla vel að starfsemi, áherslum og viðskiptavinagrunni félaganna,“ segir í kynningunni. 

Á fjórðungnum tók Reir-þróun til starfa, en það er í jafnri eigu SKEL og Fasta, sem er fjölskyldufyrirtæki á byggingamarkaði. Heildareignir þróunarfélagsins eru metnar á 4.800 milljónir króna og áætlað byggingarmagn er um 46 þúsund fermetrar, eða sem nemur að lágmarki 410 íbúðaeiningum, að teknu tilliti til áætlana og þróunarhugmynda félagsins.

Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason, forstjóri SKEL. 

Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason, sem tók nýlega við sem forstjóri SKEL, segir að fjárfestingafélagið hafi valið að starfa með eigendum Fasta þar sem félagið býr yfir umtalsverðri þekkingu og reynslu í þróun og byggingu fasteigna.

„Mikill skortur er á íbúðum og með þessari aðgerð getur Reir-þróun komið til móts við íbúðaskort,“ er haft eftir Ásgeiri í uppgjörstilkynningunni.

Verkefnin sem félagið stýrir eru dreifð um Höfuðborgarsvæðið en fyrsta verkefnið er í Garðabæ þar sem ráðgert er að byggja í áföngum 220 íbúðir. Aðrar eignir eru tekjuberandi sölustöðvar Orkunnar. Þessar eignir eru í frekari þróun, m.a. á grundvelli samkomulags við Reykjavíkurborg, sem borgin gerði við olíufélögin þrjú, um fækkun stöðva árið 2021.

SKEL fékk afhent bréf í Kaldalóni 3. maí og er nú stærsti hluthafi félagsins.

„Við sjáum að það er áhugi hjá íslensku atvinnulífi að starfa með félaginu og teljum að öðrum fjárfestum muni þykja félagið áhugaverðara með hverju skrefinu sem það tekur. Vöxtur félagsins hefur verið hraður og eignasafnið er vel til þess fallið að hýsa trausta og arðbæra atvinnustarfsemi til lengri tíma. Við horfum einnig til þess að frekari vöxtur félagsins mun gera því mögulegt að nýta þau tækifæri sem felast á íslenskum skuldabréfamarkaði til lengri tíma litið,“ segir Ásgeir.

SKEL komst í hóp stærstu hluthafa tryggingafélagsins VÍS þegar fjárfestingafélagið keypti um 2,5 prósenta hlut í apríl en fyrir átti SKEL um 4,8 prósenta eignarhlut í formi framvirka samninga. Í uppgjörstilkynningunni er bent á að markaðsvirði VÍS hafi sveiflast nokkuð á fjórðungnum.

„Skammtímasveiflur í hlutabréfaverði félagsins hafa ekki áhrif á þá skoðun SKEL að mikil verðmæti geti falist í rótgrónu vörumerki og fjölmennum viðskiptavinagrunni félagsins í þeim breytingum sem framundan eru í fjármála- og tryggingastarfsemi næstu árin,“ segir Ásgeir Helgi.

Verulegar breytingar hafa orðið á starfsemi SKEL að undanförnu þar sem eignir hafa verið seldar, reksturinn stokkaður upp með stofnun nýrra dótturfélaga og tilgangi félagsins breytt þannig að megintilgangur þess verði fjárfestingastarfsemi. Samhliða því var nafni þess breytt úr Skeljungi í SKEL fjárfestingafélag.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×