Innherji

Ekki hlutverk eftirlitsins að vernda Ljósleiðarann, segir Ardian

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Umsögn Ljósleiðarans um söluna á Mílu var neikvæðust allra umsagna að sögn Ardian. 
Umsögn Ljósleiðarans um söluna á Mílu var neikvæðust allra umsagna að sögn Ardian.  Mynd/Ljósleiðarinn

Franska sjóðastýringarfyrirtækið Ardian og Síminn telja ljóst af umsögn Ljósleiðarans um söluna á Mílu að innviðafyrirtækið, sem er í opinberri eigu, vilji atbeina Samkeppniseftirlitsins til þess að takmarka samkeppni og verja „markaðsráðandi stöðu sína“. Þetta kemur ítrekað fram í athugasemdum fyrirtækjanna tveggja um umsögn Ljósleiðarans.

„Verður samruni þessa máls sýnilega ekki ógiltur á grundvelli áhyggja af því að hartnær markaðsráðandi fyrirtæki á þeim mörkuðum sem félagið hefur stundað uppbyggingu á í krafti opinberra niðurgreiðslna, fái samkeppni um viðskipti sem félagið hefur hingað til setið eitt að, enda það ljóslega mjög hagfellt samkeppni en ekki skaðlegt,“ segir í athugasemdum Símans.

Samkeppniseftirlitið birti í gær umsagnir keppinauta Mílu og Símans, þar á meðal umsagnir Ljósleiðarans, Sýnar og Nova, um tillögur Ardian að skilyrðum fyrir yfirtökuna á Mílu. Ardian lagði til að einkakaupasamningurinn milli Símans og Mílu yrði til 17 ára í stað 20 ára til að koma til móts við frummat Samkeppniseftirlitsins sem taldi að 20 ára samningur gæti komið í veg fyrir samkeppni. Keppinautar telja hins vegar að stytta þurfi lengd samningsins til muna.

Í athugasemdum Ardian segir að umsögn Ljósleiðarans sé einna neikvæðust. „Ljóst er af umsögn Ljósleiðarans […] að fyrirtækið, sem er í opinberri eigu, hefur áhyggjur af aukinni samkeppni á heildsölumarkaði í kjölfar samrunans og vill atbeina Samkeppniseftirlitsins til þess að takmarka við sig samkeppnina.“

Áréttar Ardian í því sambandi „yfirburðastöðu“ Ljósleiðarans þegar kemur að aðgengi að fé, hvort sem er opinberu hlutafé eða lánsfé í krafti hins opinbera eignarhalds og bendir á að ESA, eftirlitsstofnun EFTA, hafi nú til skoðunar hvort Orkuveita Reykjavíkur, móðurfélag Ljósleiðarans, hafi veitt Ljósleiðaranum ívilnanir sem feli í sér brot á ríkisstyrkjareglum EES-samningsins.

Hins vegar er það ekki hlutverk Samkeppniseftirlitsins að vernda hið opinbera fyrirtæki Ljósleiðarann

„Þá skal bent á að varnaðarorð keppinauta Mílu, þá einkum Ljósleiðarans, gegn viðskiptum þessum eru sett fram til þess að takmarka samkeppni frá Mílu. Hins vegar er það ekki hlutverk Samkeppniseftirlitsins að vernda hið opinbera fyrirtæki Ljósleiðarann,“ segir í athugasemdunum.

Síminn segir málatilbúnað Ljósleiðarans þversagnakenndan. Þannig segi Ljósleiðarinn annars vegar að verðákvæði þjónustusamningsins leiði til ósjálfbærra verðhækkana á gjöldum Símans til Mílu en hins vegar að engin keppinauta Mílu muni nokkru sinni geta boðið betur í viðskipti félagsins.

„Virðist sá málatilbúnaður að enginn geti keppt við Mílu um viðskipti Símans enda einkum byggður á því að keppinautar hafi ekki sömu getu og Míla til að vöndla saman ólíkum þjónustuþáttum, en Ardian hefur þegar boðið skilyrði sem leggur bann við slíkri verðlagningu,“ segir í athugasemdum Símans.

Þá eru staðhæft að ýmsar rangfærslur séu í umsögn Ljósleiðarans, til dæmis sú fullyrðing að ákveðið hlutfall af rekstrartekjum Mílu muni til næstu tuttugu ára koma frá Símanum. 

„Sú ályktun Ljósleiðarans er röng en miðað við áform samrunaaðila er gert ráð fyrir auknum viðskiptum Mílu við önnur fjarskiptafyrirtæki sem þýðir, að öðru óbreyttu, að vægi Símans í rekstrartekjum Mílu mun minnka, þvert á það sem Ljósleiðarinn heldur fram,“ segir í athugasemdum Ardian.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.