Innherji

Archer kaupir helmingshlut í Jarðborunum fyrir um 1.100 milljónir

Hörður Ægisson skrifar
Jarðboranir

Alþjóðlega bor- og þjónustufyrirtækið Archer Ltd. hefur keypt 50 prósent hlutafjár í Jarðborunum fyrir 8,25 milljónir Bandaríkjadala, jafnvirði rúmlega 1.110 miljónir íslenskra króna. Seljendur bréfanna eru SF III, félag í rekstri sjóðastýringarfélagsins Stefnis sem átti fyrir söluna rúmlega 80 prósenta hlut og aðrir innlendir hluthafar.

Fjárfestingarfélagið Kaldbakur, dótturfélags Samherja, hefur síðustu ár verið stór fjárfestir í Jarðborunum í gegnum eignarhlut sinn í SF III. Félagið verður áfram lykilfjárfestir í Jarðborunum og mun fara með helmingshlut á móti Archer. Reiknað er með að fjárfesting Archer verði endanlega frágengin á þriðja ársfjórðungi þar sem hún er háð samþykki Samkeppniseftirlitsins.

Archer býr yfir meira en fjögurra áratuga reynslu á sviði borana, þjónustu við olíuleitarfyrirtæki og rannsókna á borholum. Fyrirtækið er með starfsemi á 45 olíuborpöllum í fjórum heimsálfum og rekur 81 færanlegan bor á landi í Suður-Ameríku. „Fjárfesting Archer í Jarðborunum mun styðja við frekari vöxt fyrirtækisins enda er mikil sérþekking og reynsla á sviði borana og þjónustu við borholur til staðar hjá Archer,“ segir í tilkynningu vegna viðskiptanna.

Jarðvarmamarkaðurinn er hluti af mikilvægustu orkugjöfum framtíðarinnar og á eftir að vaxa verulega á næstu áratugum að mati Alþjóðlegu orkumálastofnunarinnar (IEA) og annarra sérfræðinga í greininni.

Rekstur Jarðborana hefur verið erfiður síðustu ár en tekjur félagsins á árinu 2021 námu samtals 3.258 milljónum króna og minnkuðu um liðlega 170 milljónir á milli ára. Rekstarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) nam hins vegar rúmlega 500 milljónum borið saman við rekstrartap upp á 183 milljónir á árinu 2020. Níutíu manns starfa hjá fyrirtækinu í dag og er það með starfsemi á Íslandi, Azor-eyjum og Nýja-Sjálandi.

Dag Skindlo, forstjóri Archer, segir að jarðvarmi hafi beina skörun og samlegðaráhrif við kjarnaþjónustu Archer.

„Jarðboranir á sér langa rekstrarsögu í alþjóðlegri starfsemi og er virt vörumerki í jarðhitaborunum og þjónustu við borholur. Jarðvarmamarkaðurinn er hluti af mikilvægustu orkugjöfum framtíðarinnar og á eftir að vaxa verulega á næstu áratugum að mati Alþjóðlegu orkumálastofnunarinnar (IEA) og annarra sérfræðinga í greininni. Áætlað er að árlegur fjöldi borhola, þar sem borað er eftir jarðhita, muni aukast úr 200 í 700 fyrir árið 2030. Ennfremur mun aukin áhersla á hitaveitur í Evrópu knýja áfram vöxt og tækniframfarir.“

Sigurður Sigurðsson, forstjóri Jarðborana, segir það mikla traustsyfirlýsingu fyrir félagið að fá Archer inn í hluthafahópinn og að reynsla og sérþekking þess muni án nokkurs vafa styrkja Jarðboranir.

„Kaldbakur verður áfram lykilfjárfestir í Jarðborunum, með 50 prósent eignarhlut, og við höfum mikla trú á áframhaldandi vexti fyrirtækisins. Við erum sannfærð um að þau áform verði að veruleika með traustum samstarfsaðila eins og Archer í hluthafahópnum,“ segir Eiríkur S. Jóhannsson, stjórnarformaður Kaldbaks.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.