Umræðan

Uppgjör á faraldri og sóttvörnum

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar

Samfélagið var fljótt að snúa sér að öðru þegar öllum opinberum sóttvarnaaðgerðum var aflétt í febrúar. Í tvö lýjandi ár hafði faraldurinn heljartak á umræðunni og þjóðfélagið var undirorpið ákvörðunum embættismanna sem höfðu skyndilega fengið vald til að segja af eða á. En þrátt fyrir að veiran sjálf sé horfin úr sviðsljósinu væru mikil mistök að láta eins og ekkert hafi í skorist. Þegar horfur eru á því að uppsafnaður halli ríkissjóðs fram til ársins 2027 muni nema þúsund milljörðum króna verður ekki komist hjá uppgjöri á sóttvarnaaðgerðum.

Alþingi hefur nú til meðferðar frumvarp til nýrra sóttvarnarlaga sem felur í sér heildarendurskoðun á lögunum. Helstu nýmæli frumvarpsins eru þau að nýtt fjölskipað stjórnvald, farsóttanefnd, verður sett á laggirnar en hlutverk þess verður að skila inn tillögum til ráðherra um sóttvarnaráðstafanir vegna „samfélagslega hættulegra sjúkdóma.“ Einnig er ráðherra gert að kynna velferðarnefnd Alþingis forsendur og röksemdir sóttvarnaaðgerða, og hann skal upplýsa Alþingi með mánaðarlegri skýrslugjöf.

Athygli vekur að starfshópurinn sem á heiðurinn að frumvarpinu var skipaður lögfræðingum, sérfræðingum á sviði heilbrigðisvísinda og yfirlögregluþjóni. Hin fyrirsjáanlega niðurstaða af því að skipa svo einsleitan starfshóp er sú að áherslur frumvarpsins eru einsleitar. Frumvarpið, rétt eins og ákvarðanataka stjórnvalda í gegnum faraldurinn, einkennist af því að lítið sem ekkert er gert til að tryggja að litið verði til efnahagslegra og félagslegra sjónarmiða.

Eftir sem áður eru háttsettir læknar í aðalhlutverki. Þeir eiga að minnsta kosti fjögur sæti og formennsku í níu manna farsóttanefnd, og þótt nefndinni sé heimilt að kveða til tvo menn til viðbótar til að sitja í nefndinni – engin trygging er fyrir því að hagfræðingur eða félagsfræðingur verði fyrir valinu – verða þeir án atkvæðisréttar.

Frumvarpið, rétt eins og ákvarðanataka stjórnvalda í gegnum faraldurinn, einkennist af því að lítið sem ekkert er gert til að tryggja að litið verði til efnahagslegra og félagslegra sjónarmiða.

Og frumvarpið gengur ekki nógu langt í því að styrkja aðkomu Alþingis. Þegar athafnafrelsi fólks er skert með vísun til sóttvarna verður þingið að koma að ákvörðuninni með einum eða öðrum hætti. Þetta hefur Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, bent á og hann hefur jafnframt lagt til að þingið staðfesti ákvarðanir farsóttanefndar og ráðherra innan tiltekins tímafrests. Þetta er skynsamleg tillaga og hún á sérstaklega við þegar um er að ræða veiru sem er líkari flensu heldur en ebólu.

Í gegnum faraldurinn var margt aðfinnsluvert, svo ekki sé fastar að orðið kveðið, við nálgun stjórnvalda. Ríkisstjórnin framseldi völd til sérfræðinga sem, eins og margoft var bent á, greindu stöðuna út frá þröngu sjónarhorni. Tökum efnahagslegu áhrifin út fyrir sviga. Rannsóknir í Evrópu sýna að grunnskólanemar, sérstaklega börn frá lágtekjuheimilum, hafi dregist aftur úr í námi og það er ólíklegt að áhrifin séu afturkræf. Er æskilegt að áhrif á námsgetu hljóti meiri vigt þegar næsta faraldur ber að garði?  Fjölmörgum spurningum af þessu tagi er ósvarað. 

Við höfum ekki haft tóm til að rannsaka sóttvarnaaðgerðir í kórónufaraldrinum, áhrif þeirra á mikilvægustu svið samfélagsins og greina hvað hefði mátt betur fara. Heildarendurskoðun á sóttvarnalögum er ótímabær.

Höfundur er viðskiptablaðamaður á Innherja



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Umræðan

Sjá meira


×