Viðskipti innlent

Bjart­sýnn á far­sæla niður­stöðu í Mílu­sölunni

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Orri Hauksson, forstjóri Símans.
Orri Hauksson, forstjóri Símans. Vísir/Arnar

Kaup franska fyrirtækisins Ardian á Mílu frá Símanum eru í uppnámi þar sem skilyrði Samkeppniseftirlitsins fyrir kaupunum þykja of íþyngjandi. Forstjóri Símans segir mestu máli skipta hvaða áhrif salan á Mílu mun hafa á neytendur. Hann er bjartsýnn á að farsæl lausn finnist í málið.

Í tilkynningu frá Símanum í fyrradag kom fram að Ardian, sem Síminn náði samkomulagi við um kaup á Mílu síðasta haust, teldi að tillögur Ardiana til að mæta skilyrðum til að mæta áhyggjum Samkeppniseftirlitsins væru íþyngjandi. Félagið væri því ekki tilbúið að ljúka viðskiptunum að óbreyttum kaupsamningi.

Helstu áhyggjur Samkeppniseftirlitsins snúa að samningsbundum framtíðarviðskipti Mílu við Símann til margra ára. Eftir umsagnir eftirlitsaðila og keppinauta hafi Ardian og Símanum verið kynnt frummat eftirlitsins.

„Aðilar hafa tækifæri til að bregðast við því og útskýra fyrir eftirlitinu hvort og að hvaða marki það frummat ætti að breytast,“ segir Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins. 

Fyrir eftirlitinu liggi að fara yfir tillögur og sjónarmið aðila, en eftir sléttan mánuð ætti að liggja fyrir hvort kaupin verði heimiluð eða þeim hafnað.

Páll Gunnar Pálsson er forstjóri Samkeppniseftirlitsins.Aðsend

Flókið eins og margt í lífinu

Forstjóri Símans telur að salan á Mílu til Ardian yrði jákvæð fyrir samkeppni á íslenskum fjarksiptamarkaði.

„Ég held að aðalmálið sé að líta á það hvaða áhrif kaup eins og þessi hafa á neytendur á Íslandi og landsmenn. Ég held að það að Míla verði öflugra félag, frjálst undan því að vera í eigu eins af fjarskiptafélögunum sjálfum muni leysa úr læðingi mikinn kraft,“ segir Orri Hauksson forstjóri.

Hann sé bjartsýnn á að salan geti gengið eftir.

„Við erum búin að fara í gegnum langt ferli á ýmsum sviðum með þessi kaup. Hingað til hefur það gengið eftir, þó að það hafi margt verið flókið. Þetta er líka flókið, eins og margt í lífinu, en við stefnum bara að því að láta þetta fá góða og farsæla lausn.“





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×