Klinkið

Misráðnu ríkisútgjöldin sem aldrei urðu

Ritstjórn Innherja skrifar
Kristrún Frostadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, hefur gagnrýnt efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar harðlega. 
Kristrún Frostadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, hefur gagnrýnt efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar harðlega.  Vísir/Egill

Himinn og haf skilja að ástandið á vinnumarkaðinum í dag og það sem var í byrjun árs 2021. Samkvæmt mælingu Vinnumálastofnunar í júní mældist atvinnuleysi einungis 3,3 prósent en til samanburðar nam það 11,6 prósentum í janúar á síðasta ári. Atvinnustig hefur til allrar hamingju batnað mun hraðar en nokkurn gat órað fyrir þegar hagkerfið var í djúpri lægð.

Í fjármálaáætlun sem var lögð fram vorið 2021 gerðu stjórnvöld ráð fyrir að atvinnuleysi yrði sjö prósent á þessu ári og sex prósent á því næsta þrátt fyrir viðsnúning í efnahagslífinu. Og á þessum tímapunkti höfðu margir áhyggjur af því að langvarandi atvinnuleysi myndi hafa djúpstæðar félagslegar afleiðingar í för með sér.

Rýna þarf vandlega í efnahagsaðgerðirnar sem ríkisstjórnin greip til og eflaust mun sú vinna leiða í ljós að sumt hefði betur mátt fara. En einnig er rík ástæða til að rifja upp tillögur stjórnarandstöðuflokka sem er oftast hlíft við dómi sögunnar.

Háværasta gagnrýnin á efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar kom frá Samfylkingunni. Skömmu eftir að kórónuveiran setti samfélagið á hliðina kallaði Ágúst Ólafur Ágústsson, þáverandi þingmaður, eftir fjölgun ríkisstarfsmanna til að bregðast við auknu atvinnuleysi og þegar það náði hámarki í byrjun árs 2021 talaði Kristrún Frostadóttir, sem komst inn á þing fyrir hönd flokksins seinna á árinu, fyrir því að ríkissjóður skuldsetti sig enn frekar til setja meiri kraft í vinnumarkaðsaðgerðir.

„Við getum dregið úr skuldsetningu ríkissjóðs til meðallangs tíma með því að setja meiri kraft í aðgerðir fyrir vinnumarkaðinn í dag,“ sagði Kristrún.

Nú þegar kórónukreppan er að baki, atvinnuleysi hefur hríðfallið og verðbólga er stærsti efnahagsvandi stjórnvalda liggur fyrir að frekari aukning ríkisútgjalda á síðasta ári til að ná niður atvinnuleysi hefði ekki einungis verið óþörf aðgerð heldur misráðin. En sem fyrr segir þarf stjórnarandstaðan sjaldan að standa skil á tillögum sínum. 


Klinkið er vettvangur Innherja þar sem dregin er upp mynd og veitt innsýn í bakherbergi viðskipta, stjórnmála og atvinnulífs á landinu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.