Innherji

Lands­bankinn vill keppa við Salt­Pay og Ra­pyd í greiðslu­miðlun

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Landsbankinn verður þriðji nýi þátttakandinn á markaðinum.
Landsbankinn verður þriðji nýi þátttakandinn á markaðinum. VÍSIR/VILHELM

Landsbankinn vinnur markvisst að því, samkvæmt heimildum Innherja, að fara í samkeppni við SaltPay og sameinað fyrirtæki Valitors og Rapyd á sviði greiðslumiðlunar. Gangi áform bankans eftir verður hann þriðji nýi keppinauturinn á markaðinum ásamt Kviku banka og Sýn.

Samkeppniseftirlitið samþykkti kaup Rapyd á Valitor í lok maí en rannsókn sem eftirlitsstofnunin stóð fyrir hafði leitt í ljós að markaðshlutdeild sameinaðs fyrirtækis yrði 70-75 prósent ef samruninn gengi í gegn án íhlutunar. Niðurstaðan var því sú að Valitor seldi safn færsluhirðingasamninga, sem saman mynda 25 prósenta markaðshlutdeild, til Kviku banka sem hyggst ryðja sér til rúms á markaðinum.

Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins kom einnig fram að frá upphafi rannsóknarinnar hefði legið fyrir að tvö íslensk fyrirtæki hygðust hefja starfsemi. Annað þeirra er fjarskipta- og fjölmiðlunarfyrirtækið Sýn sem hefur í síðustu uppgjörskynningum boðað innkomu á markaðinn á þessu ári.

Hitt fyrirtækið, eftir því sem Innherji kemst næst, er Landsbankinn en bankinn brást ekki við fyrirspurn Innherja um áformin. Samkvæmt heimildum hefur Árni Geir Pálsson, fyrrverandi forstjóri Icelandic Group, leitt vinnuna fyrir hönd bankans en hann hefur áður stýrt hugbúnaðarþróun á sviði greiðslulausna sem framkvæmdastjóri Median hf.

Rannsókn eftirlitsins leiddi einnig í ljós að veigamiklir viðskiptavinir, til dæmis smásölurisinn Festi, hefðufært viðskipti sín frá SaltPay til Valitors og Rapyd á seinni hluta síðasta árs en enginn veigamikill viðskiptavinur hefði fært sig yfir til SaltPay á sama tímabili.

„Nærtækt er með hliðsjón af þessu að draga þá ályktun að mikil samkeppni hafi ríkt milli Valitor og Rapyd, en samkeppni SaltPay hafi verið veik gagnvart báðum enda hefur fyrirtækið tapað hlutdeild til bæði Valitors og Rapyd frá árinu 2019,“ sagði í ákvörðun eftirlitsins.

Jónína Gunnarsdóttir, forstjóri SaltPay, sagði í svari til Innherja að fyrirtækið hefði gert fjölmargar breytingar í fyrra sem sneru að því að jafna greiðslukjör viðskiptavina og einfalda vöruframboð.

„Markmiðið með breytingunum er að gera okkur kleift að þjónusta kjarnahóp SaltPay, sem eru lítil og meðalstór fyrirtæki, enn betur og bjóða upp á nýjar lausnir sem hjálpa þeim í sínum rekstri," sagði Jónína.

Hreinar rekstrartekjur SaltPay námu 1,9 milljörðum króna á síðasta ári og lækkuðu þær um ríflega 17 prósent milli ára. Félagið var rekið með nærri 1,4 milljarða króna tapi samanborið við 1,2 milljarða króna tap á árinu 2020.

Áhersla SaltPay er ekki lengur á að vera með mestu veltuna til skemmri tíma litið, að sögn Jónínu, heldur að vera með marga góða viðskiptavini.

„Þessi stefna er farin að skila sér en viðskiptavinum SaltPay á Íslandi hefur fjölgað umtalsvert það sem af er þessu ári. Tapið sem var á rekstri félagsins í fyrra skýrist að mestu leyti af Covid en ég á von á að hann nái jafnvægi á þessu ári og að félagið skili hagnaði strax á næsta ári.“

Þá benti Samkeppniseftirlitið á að starfsemi færsluhirðanna þriggja hefði gengið illa undanfarin ár en þau skiluðu öll tapi á árunum 2019 og 2020. Afkoman versnaði milli þessara tveggja ára hjá SaltPay og Rapyd en fór batnandi hjá Valitor og hefur sá bati haldið áfram. Samkvæmt nýútgefnum ársreikningi Valitors fyrir árið 2021 skilaði Valitor 333 milljóna króna hagnaði eftir skatta á árinu 2021.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×