Neytendur

Verð­bólgan ekki á förum þó verð á á­kveðnum vörum lækki

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Ari Skúlason hagfræðingur.
Ari Skúlason hagfræðingur.

Verðlækkanir í ákveðnum vöruflokkum eru ekki endilega til marks um hjaðnandi verðbólgu. Þættir sem stuðla að aukinni verðbólgu vega á móti þeim sem hægja ættu á henni. Hagfræðingur segir verðbólguna ekkert á förum.

Verðbólga hér á landi mældist átta komma átta prósent í júnímánuði, og spár gera ráð fyrir að hún hækki eitthvað frekar. Í umræðu um verðbólguna hefur verið bent á að atburðir og aðstæður erlendis valdi henni, auk ástandsins á húsnæðismarkaði. Með einföldun aðfangakeðja og ódyrari flutningum ætti hún því að fara hjaðnandi. Eða hvað? Hagfræðingur hjá Landsbankanum segir málið ekki svo einfalt.

„Hins vegar er staðan líka sú að það er mikill þrýstingur, það er mikill þrýstingur til dæmis vegna launahækkana víða í Evrópu og víðar, sem kemur mögulega til með að auka verðbólgu.“

Þá hafi verðbólguvæntingar aukist víða um heim. Það muni taka tíma að snúa ofan af því.

„Á meðan staðan er sú, þá sér maður ekki alveg að það dragi verulega úr verðbólgu alveg á næstunni. Þetta tekur allt sinn tíma.“

Þeir þættir sem horfa til lækkandi vöruverðs muni þó skila sér að einhverju leyti.

„En hinir þættirnir spila á móti og það er alltaf spurning hvor armurinn verður sterkari, það sem togar verðbólguna niður og það sem togar hana upp. Það eru bara tvær skoðanir uppi í því sambandi og sitt sýnist hverjum.“

Lækkandi verð ekki endilega merki um hjöðnun

Fréttir hafa borist af því að verð á ákveðnum vörum hafi lækkað, og einhverjir gætu talið það til marks um að verðbólgan færi að hopa. Ari segir það einföldun.

„Við vitum að verð á timbri hefur verið rosalega hátt, það virðist vera eitthvað að lækka. Svona getur maður sagt með hinar ýmsu vörur, sumar lækka og aðrar hækka.“

Sjálfur telur Ari að töluverðrar verðbólgu muni gæta á næstu misserum, sér í lagi ef húsnæðisverð heldur áfram að hækka.

„Til lengri tíma fer verðbólgan niður, það er bara spurning hversu hratt, og hvað það tekur langan tíma.“





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×