Innherji

Mestu gjaldeyriskaup lífeyrissjóða í einum mánuði frá upphafi mælinga

Hörður Ægisson skrifar
Hús verslunarinnar, þar sem Lífeyrissjóður verslunarmanna er með skrifstofur súnar, en lífeyrissjóðirnir keyptu gjaldeyri fyrir samanlagt 17 milljarða í maímánuði á árinu.
Hús verslunarinnar, þar sem Lífeyrissjóður verslunarmanna er með skrifstofur súnar, en lífeyrissjóðirnir keyptu gjaldeyri fyrir samanlagt 17 milljarða í maímánuði á árinu. Vísir/Hanna

Íslensku lífeyrissjóðirnir keyptu erlendan gjaldeyri fyrir um 17 milljarða króna í maí á þessu ári en það eru stórtækustu gjaldeyriskaup þeirra í einum mánuði frá því að Seðlabankinn hóf að safna gögnum um gjaldeyrisviðskipti sjóðanna árið 2017.

Aukin gjaldeyriskaup lífeyrissjóðanna koma á sama tíma og hlutfall erlendra eigna stærstu sjóðanna fór minnkandi í fyrsta sinn í nokkurn tíma í upphafi ársins samhliða gengisstyrkingu krónunnar og miklum verðlækkunum bæði hlutabréfa og skuldabréfa á erlendum mörkuðum. 

Á fyrstu fimm mánuðum ársins nema þannig hrein gjaldeyriskaup lífeyrissjóðanna tæplega 40 milljörðum króna borið saman við liðlega 25 milljarða á sama tímabili á árinu 2021.

Fjallað er um gjaldeyriskaup lífeyrissjóðanna í nýrri fundargerð fjármálastöðugleikanefndar Seðlabanka Íslands, sem birtist eftir lokun markaða síðasta föstudag, en þar er bent á að ágætis stöðugleiki sé búinn að vera á gjaldeyrismarkaði og flökt verið hóflegt.

„Velta á millibankamarkaði með gjaldeyri hafði minnkað en hún var þó enn yfir meðaltali ársins 2019. Seðlabankinn hafði því lítið þurft að grípa inn í markaðinn ef frá væru talin stór viðskipti í apríl þegar bankinn keypti erlendan gjaldeyri í beinum viðskiptum til að mæta fjármagnsinnflæði vegna fjárfestinga erlendra aðila í ríkisbréfum,“ segir í fundargerðinni.

Þar vísar bankinn til sérstakra gjaldeyrisinngripa í byrjun aprílmánaðar þegar hann keypti gjaldeyri fyrir rúmlega 18 milljarða króna. Þau inngrip komu til, eins og Innherji hefur áður greint frá, vegna kaupa evrópska fjárfestingarsjóðsins BlueBay á 20 ára löngum óverðtryggðum ríkisskuldabréfum í útboði Lánamála ríkisins fyrir um 20 milljarða króna. Þar áður hafði Seðlabankinn síðast gripið inn á markaði fyrir tveimur mánuðum þegar hann keypti gjaldeyri fyrir rúmlega tvo milljarða til að hægja á styrkingu krónunnar.

Markmiðið með gjaldeyrisinngripastefnu Seðlabankans er að leitast við að mýkja sveiflurnar á gengi krónunnar, hvort sem er vegna hækkunar eða lækkunar, bæði til skemmri og meðallangs tíma. Gjaldeyrisforði Seðlabankans nam 860 milljörðum króna í lok maí.

Frá áramótum hefur gengi krónunnar styrkst um nærri fimm prósent ef miðað er við gengisvísitölu Seðlabankans. Gengisstyrkingin er meiri sé horft til evrunnar en á móti henni hefur krónan hækkað í verði um liðlega 5,5 prósent.

Langvarandi tímabil stöðugs viðskiptaafgangs tók enda á síðasta ári þegar það mældist halli á viðskiptum við útlönd sem er áætlaður að hafi verið 2,8 prósent af landsframleiðslu. Í síðustu Peningamálum Seðlabankans, sem birtust í maí síðastliðnum, kom fram að bankinn spáir viðvarandi viðskiptahalla á árunum 2022 til 2024 sem muni nema á bilinu 0,9 til 1,8 prósent. Á fyrsta ársfjórðungi þessa árs var halli á viðskiptum við útlönd upp á 50 milljarða króna, að því er segir í fundargerð fjármálastöðugleikanefndar.

Eftir að hafa aukist nánast stöðugt undanfarin misseri og ár þá minnkaði hlutfall erlendra eigna stærstu lífeyrissjóða landsins verulega á fyrstu þremur mánuðum ársins, eins og Innherji hefur áður fjallað um.

Erlendar eignir samtryggingardeilda fjögurra stærstu lífeyrissjóðanna – LSR, LIVE, Gildi og Birtu – minnkuðu þannig um liðlega 170 milljarða króna á fyrsta fjórðungi þessa árs og námu um 1.447 milljörðum króna í lok mars. Vægi slíkra eigna sem hlutfall af heildareignum Lífeyrissjóðs Verslunarmanna, sem var tæplega 45 prósent í árslok 2021, er þannig núna komið undir 41 prósent og í tilfelli LSR er það orðið lægra en 40 prósent.

Verulega hefur dregið úr ásókn Gildis, þriðja stærsta lífeyrissjóði landsins, í erlendar fjárfestingar að undanförnu og hefur hlutfall slíkra eigna farið stöðugt minnkandi hjá sjóðnum. Vægi erlendra eigna Gildis stendur núna í rúmlega 32 prósentum og hefur ekki verið lægra í fjögur ár.

Hlutfall erlendra eigna þessara helstu lífeyrissjóða landsins, sem samanlagt fara með um tvo þriðju allra eigna lífeyrissjóðakerfisins, er núna komið á svipaðar slóðir og við upphaf faraldursins á árinu 2020.

Lögbundið hámark kveður á um að erlendar fjárfestingar lífeyrissjóðanna megi ekki vera meiri en sem nemur helmingi af heildareignum þeirra.

Fyrr á þessu ári kynnti Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra frumvarpsdrög þar sem lag var til að lögbundið hámark erlendra eigna sjóðanna yrði fært úr því að vera að hámarki 50 prósent af heildareignum upp í 65 prósent. Á sú breyting að taka gildi í fimmtán jafn stórum skrefum á árunum 2024 til 2038, en frumvarpið byggði á skýrslu sem Már Guðmundsson, fyrrverandi seðlabankastjóri, gerði en hann var fenginn til að greina hvaða leiðir væru helst færar til að rýmka heimildir lífeyrissjóðanna til fjárfestinga í erlendum gjaldmiðlum.

Forsvarsmenn sumra af stærstu sjóðunum gagnrýndu hins vegar í kjölfarið að ekki væri gengið lengra í þeim efnum og framkvæmdastjóri LSR kallaði eftir því að fjárfestingarþakið verði hækkað „hraðar og meira.“ Lífeyrissjóðirnir hafa í nokkurn tíma sagt nauðsynlegt að hækka þakið sem sé orðið íþyngjandi fyrir sjóðina sem hafa síaukna fjárfestingarþörf – hún er talin vera nettó yfir 400 milljarðar í ár – en takmarkað svigrúm til að ráðstafa fénu á íslenskum fjármagnsmarkaði.

Í breytingum sem gerðar voru á frumvarpinu í síðasta mánuði var að hluta komið til móts við þessa gagnrýni lífeyrissjóðanna þannig að núna er lagt til að á árunum 2024, 2025 og 2026 verði heimild sjóðanna í erlendum eignum hækkuð um 1,5 prósentustig á ári. Í árslok 2026 muni þeir því hafa heimild til að vera með allt að 54,5 prósent af eignum sínum í erlendri mynt. Eftir það mun hámarkið hins vegar hækka um eitt prósentustig á ári þar til nær 65 prósentum í ársbyrjun 2036.

Í frumvarpi fjármálaráðherra er jafnframt tillaga um að hámark fjárfestinga í erlendri mynt verði eingöngu bindandi á viðskiptadegi fjárfestingar. Það hefur í för með sér að ef gengisþróun eða verðþróun á mörkuðum leiðir til þess að erlendar eignir lífeyrissjóða fara upp fyrir þakið hverju sinni verður sjóðum ekki gert að selja eignir til þess komast niður fyrir það líkt og nú er.

Á fyrstu fjórum mánuðum ársins hafa erlendar eignir lífeyrissjóðanna lækkað í virði um tæplega 270 milljarða króna og stóðu í 2.055 milljörðum króna í lok apríl. Sú lækkun skýrist af gengisstyrkingu krónunnar gagnvart helstu gjaldmiðlum og verðlækkunum á erlendum verðbréfamörkuðum.


Tengdar fréttir

Seðlabankinn greip inn í til að hægja á styrkingu krónunnar

Seðlabanki Íslands greip inn á gjaldeyrismarkaði á föstudaginn fyrir helgi þegar hann keypti gjaldeyri til að vega á móti gengishækkun krónunnar en hún hafði þá styrkst um hátt í eitt prósent í viðskiptum dagsins þegar bankinn kippti henni til baka, samkvæmt heimildum Innherja.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.