Klinkið

Innri endurskoðandi Kviku ráðinn yfir til Arion banka

Ritstjórn Innherja skrifar
Anna Sif Jónsdóttir hefur verið innri endurskoðandi Kviku banka og forverum hans frá árinu 2013.
Anna Sif Jónsdóttir hefur verið innri endurskoðandi Kviku banka og forverum hans frá árinu 2013.

Anna Sif Jónsdóttir, sem hefur verið innri endurskoðandi Kviku banka í nærri áratug, hefur söðlað um og ráðið sig yfir til Arion banka. Þar mun hún gegna starfi forstöðumanns innri endurskoðunar Arion banka, samkvæmt upplýsingum Innherja.

Tekur Anna Sif við þeirri stöðu af Sigríði Guðmundsdóttir sem hefur verið innri endurskoðandi bankans frá árinu 2019.

Hlutverk innri endurskoðanda er að meta hvort innra eftirlit í daglegri starfsemi bankans og dótturfélaga sé fullnægjandi. Á hann að veita óháða og hlutlæga staðfestingu og ráðgjöf sem er ætlað að vera virðisaukandi og bæta reksturinn. Innri endurskoðun starfar óháð öðrum deildum í skipulagi bankans og yfirmaður sviðsins hefur þannig beinar starfslegar boðleiðir til stjórnarinnar.

Áður en Anna Sif tók við sem innri endurskoðandi MP banka (forvera Kviku) í ársbyrjun 2013 var hún meðal annars fjármálastjóri Regins, forstöðumaður reikningshalds hjá fasteignafélaginu Stoðum og starfaði hjá KPMG.

Anna Sif er löggiltur endurskoðandi, með Cand Oecon gráðu í viðskiptafræði, próf í verðbréfarétti og BA í sagnfræði frá Háskóla Íslands.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×