Atvinnulíf

Eftirlaunaaldurinn og tilfinningastigin fimm

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Það fylgja því alls kyns tilfinningar að hætta að vinna. Þess vegna skiptir máli að undirbúa sig vel undir starfslokin með góðum fyrirvara og þá ekki síst andlega.
Það fylgja því alls kyns tilfinningar að hætta að vinna. Þess vegna skiptir máli að undirbúa sig vel undir starfslokin með góðum fyrirvara og þá ekki síst andlega. Vísir/Getty

Þegar að við missum ástvin förum við í gegnum fimm stig í sorgarferlinu og þau tilfinningastig eru þau sömu og þegar að við missum vinnuna.

En þegar að við hættum að vinna, förum við líka í gegnum fimm mismunandi stig sem þó geta verið vægari ef fólk hefur undirbúið sig undir það lengi að hætta að vinna.

Þessi stig fara öll með okkur í gegnum ákveðnar tilfinningar, en þeim má skipta í fimm mismunandi tímabil.

#1: Undanfari starfslokanna

Við hættum ekki allt í einu að vinna, án þess að vera búin að búa okkur undir það með einhverjum hætti. Ekki síst fjárhagslega enda er mælt með því að fólk skoði fjárhaginn og undirbúi það með góðum fyrirvara, hvernig lífinu verður háttað eftir að maður hættir að vinna.

Því það að vera vel undirbúin fjárhagslega gefur okkur strax meiri ró frekar en ótta við of miklar breytingar eða kvíða fyrir því að geta ekki lengur leyft okkur ýmislegt sem við áður höfum gert. Eins og að ferðast.

En það er þó ekkert síður andlega sem við þurfum að undirbúa okkur undir starfslok. Því flest okkar höfum unnið frá unglingsaldri, jafnvel fyrr og ekkert sjálfgefið að við séum öll undir það búin að þurfa einn daginn ekki að mæta til vinnu og standa okkar pligt.

Mælt er með því að fólk fari að huga að þessum málum, bæði fjárhaginn og andlega undirbúninginn, fimm til tíu árum áður en áætluð starfslok verða.

#2: Tilhugalífið

Jæja, loks kemur að því og síðasta vinnudegi lokið. Við erum frjáls! 

Nú á aldeilis að bretta upp ermarnar og ráðast í að gera allt sem við einmitt erum búin að undirbúa síðustu mánuði. Framkvæmdir, ferðalög, golf með vinum.

Stórfjölskyldan er boðin í mat og við hittum vini og kunningja oftar og lengur en áður og sinnum áhugamálunum.

Það er hreinlega allt í gangi og má helst líkja þessu tímabili við skemmtilegt frí.

Hjá mörgum er þetta tímabil því einstaklega skemmtilegt tímabil og fjörugt.

#3: Bakslagið

Þegar tilhugalífinu lýkur tekur við hjá mörgum svolítið erfiður tími. Því fæstir eru í gleðinni og framkvæmdunum endalaust.

Hið daglega líf tekur við nema að nú er engin vinna að mæta í eða hugsa um.

Og við erum ekki að hitta vinnufélagana sem við vorum vön að hitta fimm sinnum í viku.

Sumir upplifa ákveðinn tómleika og söknuð yfir því sem var. Sumum finnst eins og þeir séu ekki eins spennandi sem persónur lengur, því það er ekkert hlutverk annað en að vera til.

Fiðringurinn og frelsistilfinningin hverfur og margir tala um að þeir upplifi leiða, einmanaleika eða að þeim vanti tilgang.

#4: Okkar eigin þróun

En síðan kemur sem betur fer að því að flest fólk nær að endurstilla sig. Svona svipað og við gerum við símana okkar eða tölvur: Við náum að uppfæra okkur yfir í að vera einstaklingur sem er hættur að vinna.

Og svolítið kynnumst sjálfum okkur upp á nýtt, sem manneskja sem er hætt að vinna.

Það gæti vel verið að mörgum finnist þessi tími hökta svolítið. Því þessi endurstilling eða uppfærsla okkar er persónuleg og tekur okkur smá tíma.

Í raun svolítið eins og við séum í þróun og að móta okkur upp á nýtt.

Við þurfum að prófa nýja hluti, jafnvel ný áhugamál því margir átta sig á því að áhugamálin sem fyrir voru eru ekki að dekka allan þennan frjálsa tíma sem við nú höfum.

En við viljum samt vera svolítið upptekin í daglegu lífi, sama hvað við veljum að gera. Að finna neista, ástríðu, tilgang sem samanlagt nær að búa til nýja dagskrá fyrir þetta nýja daglega líf okkar.

#5: Stöðugleikinn

Loks er það síðasta stigið sem segja má að sé það tímabil þar sem við erum loksins komin í höfn.

Eða kannski erum við bara komin í mark!

Á þessu lokastigi erum við jákvæð og finnum betur hvernig við erum farin að njóta daglega lífsins okkar sem eftirlaunaþegar. Vissulega eru hápunktar í þessu daglega lífi, eins og alltaf áður var. Til dæmis þegar eitthvað stendur til eða við erum að ferðast og fleira.

En tilfinningalega og í líðan erum við ánægðari, sáttari, uppteknari og búin að finna tilganginn okkar. 

Að finna hvenær við erum komin á stig stöðugleikans finnum við því innra með okkur og þetta er stigið sem við viljum komast á eftir að við hættum að vinna.


Tengdar fréttir

Einkenni algengra aldursfordóma á vinnustöðum

Aldursfordómar hafa orðið nokkuð undir í umræðum síðustu ára um fordóma á vinnustöðum og forvarnir gegn þeim. Meira er rætt um aðgerðir og forvarnir gegn kynfordómum, kynvitund, kynhneigð, þjóðerni og trú. 

Steinhissa þegar Halla Bondó svarar enn í símann

„Þetta voru allt aðrir tímar og helst fyrirmenn sem fengu kreditkort. Og nánast engar konur því á þessum tíma voru það karlarnir sem voru skráðir fasteignaeigendurnir og þar með höfðu eiginkonurnar ekkert á bakvið sig,“ segir Halla Guðrún Jónsdóttir hjá SaltPay þegar hún rifjar upp fyrstu árin eftir að kreditkort voru kynnt til sögunnar á Íslandi.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×