Innherji

Flosi hættir hjá Starfsgreinasambandinu

Hörður Ægisson skrifar
Flosi Eiríksson hefur verið framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins frá árinu 2018.
Flosi Eiríksson hefur verið framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins frá árinu 2018. vísir/vilhelm

Flosi Eiríksson, sem hefur verið framkvæmdastjóri Starfsgreinasambands Íslands (SGS) frá árinu 2018, lætur af störfum hjá samtökunum skömmu áður en formlegar viðræður við Samtök atvinnulífsins um nýja kjarasamninga á almennum vinnumarkaði hefjast en þeir verða lausir 1. nóvember næstkomandi.

Flosi sagði upp störfum í lok síðasta mánaðar fyrir formannafund Starfsgreinasambandsins, sem er fjölmennasta landssamband launfólks á Íslandi með samtals um 72 þúsund félagsmenn, en SGS hefur nú auglýst eftir nýjum framkvæmdastjóra til að taka við keflinu. Flosi segir í samtali við Innherja að hann hafi sagt upp störfum frá og með 1. ágúst næstkomandi og sé með þriggja mánaða uppsagnarfrest. 

Formannsskipti voru hjá Starfsgreinasambandinu fyrr á þessu ári þegar Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, var kosinn nýr formaður á þingi sambandsins í mars síðastliðnum með tæplega 54 prósent greiddra atkvæða. Tók hann við formennskunni af Birni Snæbjörnssyni sem hafði gegn stöðunni undanfarin tólf ár.

Flosi var ráðinn framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins, sem er stærsta landssambandið innan ASÍ, í árslok 2018 en áður starfaði hann meðal annars hjá Íslandsstofu, KPMG auk þess að hafa setið um árabil í bæjarstjórn Kópavogs.

Viðræðunefnd SGS birti fulltrúm Samtaka atvinnulífsins kröfugerð sína fyrir komandi kjarasamninga á fundi þann 22. júní síðastliðinn.

Í tilkynningu sem samtökin sendu frá sér kom fram að kröfugerðin, sem byggir á kröfugerðum 17 af aðildarfélögum SGS, sé á grunni þess kjarasamnings sem var gerður við SA í apríl árið 2019.

Lögð er áhersla á áframhaldandi hækkun lægstu launa og að tryggja kaupmátt launafólks. „Krónutöluhækkanir á laun, eins og samið var um í núgildandi kjarasamningi, skila launafólki mestum árangri og er það krafa SGS að samið verði um krónutöluhækkanir á kauptaxta í komandi kjarasamningum,“ sagði í tilkynningunni.

Þá sagði SGS að við þær aðstæður sem nú væru upp í samfélaginu og efnahagsumhverfinu, með vaxandi verðbólgu og vaxtahækkunum Seðlabankans, myndi aðkoma stjórnvalda að kjarasamningum skipta miklu máli við gerð þeirra.

„Stóraukin verðbólga, miklar verðhækkanir og mikill vandi á húsnæðismarkaði kalla á að stjórnvöld og SA taki höndum saman við samtök launafólks til að tryggja kaupmátt, húsnæði fyrir alla og öfluga grunnþjónustu um land allt,“ að sögn SGS.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×