Rafíþróttir

Skipulagði stórt rafíþróttamót fyrir samnemendur í vinnuskólanum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Það var líf og fjör í Arena þegar Vinnuskólamótið í rafíþróttum fór fram.
Það var líf og fjör í Arena þegar Vinnuskólamótið í rafíþróttum fór fram.

Tómas Breki Steingrímsson, 17 ára nemandi í vinnuskólanum í Kópavogi, hefur nýtt sumarið í að skipuleggja stórt rafíþróttamót fyrir samnemendur sína í vinnuskólanum. Mótið kláraðist í gær, en Tómas vann verkefnið með hjálp Rafíþróttasamtaka Íslands.

Margir tengja vinnuskólan við það að liggja í blómabeði og reyta arfa, en Tómas fór aðra leið en flestir. Skipulagning mótsins var samvinnuverkefni vinnuskólans í Kópavogi og RÍSÍ, en keppt var í leiknum Rocket League.

„Ég sótti bara um hjá RÍSÍ og þegar ég mætti þangað þá komu þau með nokkrar hugmyndir af því sem ég gæti gert, þannig að ég fékk bara að ráða hvaða verkefni ég væri með hjá þeim. Ég gat farið að taka viðtöl og eitthvað svoleiðis eða haldið stutt mót. Þannig að ég ákvað bara að halda mót. Síðan var það að ákveða leikinn og mér fannst Rocket League vera svona það sem flestir gætu spilað,“ sagði Tómas þegar blaðamaður Vísis náði tali af honum.

 Tómas hóf sumarið í allt öðru starfi en að skipuleggja mót fyrir Rafíþróttasambandið og segist í rauninni bara hafa rekist á þetta tækifæri fyrir tilviljun.

„Þegar ég var hjá vinnuskólanum sjálfum og maður gat valið þá var þetta ekki á þeim lista. Ég sá svo bara á Facebook hjá vinnuskólanum að það væri verið að biðja fólk um að sækja um hjá RÍSÍ. Ég var fyrst að vinna í leikskóla, en ákvað svo að breyta til þegar ég sá þetta.“

„Hélt að fólk myndi ekkert nenna að mæta“

Stemningin á Vinnuskólamótinu var góð.

Alls voru um 40 ungmenni sem mættu til leiks í Vinnuskólamótið, en Tómas segir að skráningin hafi farið fram úr hans vonum.

„Ég hélt fyrst að það yrði miklu minni skráning af því að ég hélt að fólk myndi ekkert nenna að mæta að spila bara einhverja tölvuleiki. En svo þegar allt þetta fólk mætti þá hugsaði maður að þetta væri fáránlega mikið af fólki og varð svolítið stressaður í byrjun.“

„Við létum flokkstjórana bara hafa blöð þar sem krakkarnir gátu skráð sig. Það var hægt að óska eftir liðsfélögum, en ég held að við höfum eitthvað klúðrað því þar sem enginn óskaði eftir liðsfélögum. En ég held að það hafi bara verið betra af því að annars gastu fengið lið þar sem tveir geggjaðir spilarar voru saman og þeir hefðu bara rústað mótinu. Þannig að við létum þetta vera handahófskennt og fólk spilaði bara með hverjum sem er.“

Mikil stemning og gæti orðið árlegt

Mótið var haldið í Arena, sem oft hefur verið kallað þjóðarleikvangur rafíþrótta á Íslandi. Tómas segir að stemningin í húsinu hafi verið góð og að hann sjái fyrir sér að þetta gæti orðið árlegur viðburður.

„Það var mjög mikil stemning. Þetta var smá óreiða í byrjun, en þegar leið á var þetta bara frábært.“

„Ég myndi halda að þetta gæti orðið árlegur viðburður. Mér fannst allavega mjög skemmtilegt að sjá um þetta og ég myndi segja að sá næsti sem vinnur hérna gæti gert þetta líka og þetta yrði bara árlegur viðburður hjá Arena og RÍSÍ,“ sagði Tómas, áður en hann þakkaði kollegum sínum hjá Rafíþróttasamtökunum fyrir aðstoðina.

„Ég var náttúrulega ekkert einn í þessu. Ég fékk mikla hjálp við það að sjá um mótið. Við vorum fjögur og hjálpuðumst mikið að með þetta,“ sagði Tómas að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×