Neytendur

Síminn Sport hækkað um 40 prósent frá áramótum

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Síminn/Míla
Síminn/Míla

Síminn hefur ákveðið að hækka verð á flestum vörum sínum en hækkanirnar taka gildi næstu mánaðamót. Þar á meðal hækkar verðið á Símanum Sport í 4.900 krónur en frá áramótum hefur verðið á sportpakka Símans hækkað um 40 prósent.

Vísi barst ábending um að verðið á Símanum Sport væri að hækka á næstunni vegna mikillar kostnaðaraukningar í nýjum samningum um Enska boltann. Frá áramótum hefur verðið á Símanum Sport farið úr 3.500 krónum á mánuði í 4.900 krónur á mánuðir. Það gerir 40 prósent hækkun á rúmu hálfu ári.

Aðspurður um ástæður fyrir hækkunum á Símanum Sport sagði Guðmundur Jóhannesson, upplýsingafulltrúi Símans, að hækkanirnar væru hluti af mörgum samverkandi þáttum eins og víða annars staðar. 

Hins vegar sagði Guðmundur að næsta tímabil enska boltans væri einnig fyrsta tímabilið sem hæfist á nýjum samningi. Í ár hafi verið nýtt útboð og þar gerður nýr kaupsamningur þar sem sjónvarpsréttindin voru keypt til næstu þriggja ára.

Aukin verðbólga og dýrari aðföng hafi áhrif

Blaðamaður talaði einnig við Magnús Ragnarsson, framkvæmdastjóra miðla hjá Símanum, um fyrirhugaðar breytingar á verðskránni en hann sagði ástæðurnar fyrir hækkunum vera aukna verðbólgu og dýrari aðföng auk þess sem það væri langt síðan fyrirtækið hefði hækkað verð.

„Það er langt síðan við höfum hækkað verð á sumar vörur og við erum að horfa á rekstrarhorfur okkar næstu vetur í 8,8 prósent verðbólgu og með dýrari aðföngum á ýmsu,“ sagði Magnús.

„Þetta er ekki bundið við sportpakkann, við erum að hækka Premium, við erum að hækka Heimilispakkann. Við erum með þverhækkun á flestar vörur.“

Þó segir hann að það komi ekki bara til hækkunar af því það sé verið að stækka pakkana. Yfir heildina sé þó verið að hækka verðið á flestum vörum. Hins vegar munu áskrifendur Símans Sport ekki finna fyrir hækkunum fyrr en í ágúst þar sem fyrirtækið rukkar ekki fyrir íþróttapakkann yfir sumarmánuðina.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.