Innherji

Eigandi LEGO setur 5 milljarða króna í Kerecis

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Guðmundur Fertram Sigurjónsson, forstjóri Kerecis.
Guðmundur Fertram Sigurjónsson, forstjóri Kerecis. Kerecis

Danska fyrirtækið KIRKBI A/S, eigandi LEGO vörumerkisins, mun fjárfesta 40 milljónum Bandaríkjadala, jafnvirði 5,3 milljörðum króna, í Kerecis og er íslenska fyrirtækið verðmetið á 73 milljarða króna í viðskiptunum. Þetta kemur fram í bréfi sem stjórn Kerecis sendi á hluthafa í gær og Innherji hefur undir höndum.

Eftir samningaviðræður við KIRKBI hefur stjórnin samþykkt lokað útboð á hlutabréfum félagsins þar sem danska félagið verður aðalfjárfestir. KIRKBI mun fjárfesta 40 milljónum í fyrirtækinu og fara með 6,4 prósenta hlut. Kerecis mun einnig selja meðfjárfestum að lágmarki 10 milljónir dala af hlutabréfum í útboðinu, sem má hækka upp í 20 milljónir dala samkvæmt ákvörðun stjórnar. Öll nýútgefin hlutabréf verða seld á 78,19 dalir á hlut.

Heildartekjur Kerecis á síðasta fjárhagsári sem lauk 30. september 2021 voru 29 milljónir dala, jafnvirði 3,9 milljarða króna, og gerir félagið ráð fyrir að brúttótekjur fyrir núverandi fjárhagsár muni meira en tvöfaldast.

Kerecis, sem er með höfuðstöðvar sínar á Ísafirði, framleiðir afurðir úr þorskroði sem eru seldar til meðhöndlunar á þrálátum sárum og brunasárum. Stærsti hluti tekna Kerecis kemur frá Bandaríkjunum og til að viðhalda örum vexti vestanhafs hyggst félagið sækja meira fjármagn.

Á síðasta ári var til skoðunar að skrá félagið á hlutabréfamarkað í Svíþjóð eða Bandaríkjunum en stjórn Kerecis hefur horfið frá þeim áformum.

„Frá og með ársbyrjun 2022 hefur hagkvæmni þess að skrá félagið orðið verulega minna aðlaðandi vegna veikingar á hlutabréfamörkuðum. Að því virtu, hefur stjórnin kannað aðrar leiðir til að fjármagna vöxt félagsins,“ segir í bréfinu.

Samtökin Emerson Collective, sem voru stofnuð af Laurene Powell Jobs, ekkju Steve Jobs, bættust við hluthafahópinn árið 2019 og eru nú á meðal stærstu hluthafa Kerecis. Aðrir helstu hluthafar Kerecis eru félög í eigu forstjórans Guðmundar Fertrams, eignarhaldsfélagið Omega sem er í eigu fjárfestanna Birgis Más Ragnarssonar og Andra Sveinssonar, og franska fyrirtækið CuraeLab.

Tryggingafélögin VÍS og Sjóvá eru einnig á meðal hluthafa. Í síðasta ársfjórðungsuppgjöri VÍS var miðað við gengið 26,7 dalir og eignarhluturinn metinn á 442 milljónir króna. Ef tekið er mið af genginu í hlutafjárútboðinu, rúmlega 78 dali á hlut, hækkar virði eignarhlutarins um nærri milljarð króna. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×