Umræðan

Næstu tvö ár ráða úrslitum

Ísak Rúnarsson skrifar

Fyrir um mánuði síðan keyptum við konan flugmiða frá Íslandi til Parísar. Aðra leið kostaði miðinn um 25.000 krónur á mann. Við förum ekki aftur heim fyrr en í ágúst og fannst því ekkert liggja á að kaupa miðann heim. Grundvallarmistök, því nú virðist miðinn kosta tvöfalt og litlu skiptir að við erum nokkuð sveigjanleg þegar kemur að því hvaða dag við fljúgum. Flugfargjöld hafa einfaldlega hækkað – og það nokkuð mikið.

Flugfargjaldamarkaðurinn er býsna táknrænn fyrir þær miklu sviptingar sem eiga sér stað í efnahagsmálum vestrænna ríkja um þessar mundir. Hér um bil allir og amma þeirra eru komnir með nóg af því að halda sig heima. Flugfélög heimsins keppast við að skala upp starfsemi sína til þess að anna eftirspurn, en þrátt fyrir það er varað við víðtækum seinkunum og aflýsingum í sumar, einkum vegna skorts á starfsfólki. Eftirspurnin er heldur betur komin á skrið og þrýstir verðinu upp. Á sama tíma glímir heimurinn í vaxandi mæli við efnahagslegar afleiðingar af innrás Rússa. Á flugmarkaðnum finna menn helst fyrir miklum eldsneytisverðshækkunum sem auka enn á verðþrýsting.

Á máli hagfræðinnar má því segja að hagkerfi heimsins upplifi nú samtímis jákvæðan eftirspurnarskell og neikvæðan framboðsskell. Áhrifin einskorðast auðvitað ekki við flugmarkaðinn þó hann gefi ágætis mynd af áhrifum beggja. Ofan á þetta allt virðist neyslumynstur að einhverju leyti hafa breyst varanlega. Slíkar breytingar geta til skamms tíma valdið spennu í aðfangakeðjum á meðan verið er að skala upp framleiðslu á ákveðnum vörum og minnka hana annars staðar, færa flutningsgetu á milli ólíks varnings og svo framvegis.

Hafandi fylgst með núverandi forsvarsmönnum stærstu verkalýðsfélaga landsins er þó nánast útilokað að ætla að þau rísi undir ábyrgð sinni. Fyrir vikið mun verðbólguþrýstingur enn aukast eftir kjaraviðræður í haust.

Til þess að æra óstöðugan er svo gríðarlegt peningamagn í umferð eftir að prentvélar voru settar á fullt í kófinu. Seðlabankar bæði heima og víðast hvar annarsstaðar hafa verið heldur til hægir að slökkva á þeim í tæka tíð. Á Íslandi hafa vaxtalækkanir tilfinnanlega birst í hækkandi húsnæðisverði, en vegna pólitískra ákvarðana á sveitarstjórnastiginu hefur verið viðvarandi uppsafnaður íbúðaskortur um árabil, sem gerir markaðinn að líkindum næmari fyrir vaxtabreytingum en ella.

Miklar áskoranir í efnahagsmálum framundan

Það er því að teiknast upp nokkuð alvarleg staða í efnahagsmálum á Íslandi sem og víðast hvar í heiminum. Eftirspurn er enn kröftug en fari svo að stríðið í Úkraínu ílengist og matar-, eldneytis- og annað hrávöruverð haldist hátt er hætta á að í garð gangi tímabil stöðnunar og verðbólgu.

Fyrir seðlabankastjóra eru það afskaplega krefjandi aðstæður og ekki líklegar til vinsælda. Þá er sérstaklega mikilvægt að aðrir sem fara með rullu í hagstjórninni takist einnig á við verkefnið af ábyrgð og festu. Hafandi fylgst með núverandi forsvarsmönnum stærstu verkalýðsfélaga landsins er þó nánast útilokað að ætla að þau rísi undir ábyrgð sinni. Fyrir vikið mun verðbólguþrýstingur enn aukast eftir kjaraviðræður í haust. Þá er nauðsynlegra en oft áður að fjármálastjórnin annars vegar og peningamálastjórnin hins vegar haldist í hendur í verkum sínum.

Ef ríkisstjórninni er alvara með að takast á við verðbólguvandann er nauðsynlegt að gera tvennt. Annars vegar þarf að leggjast í víðtæka skoðun á sértækum hagræðingaraðgerðum og hins vegar þarf að létta á regluverki.

Nær óumflýjanlegt er að Seðlabanki Íslands hækki vexti á komandi misserum. Vaxtahækkanir þurfa hins vegar að vera af eins skornum skammti og völ er á. Slíkt gerist aðeins með ábyrgri fjármálastjórn. Þensla í ríkisbúskapnum mun eingöngu skila sér í aukinni verðbólgu eða hærri vöxtum, nema hvort tveggja sé. Þá eru skattahækkanir ekki skynsamlegt úrræði í núverandi árferði enda er líklegasta sviðsmyndin sú að töluvert muni sverfa að heimilum landsins á næstunni. Bæði finna heimili beint fyrir verðbólgu en auk þess ætti vaxtaleiðnin (þ.e. hversu næmt hagkerfið er fyrir vaxtabreytingum) að vera orðin töluvert betri nú, þegar óverðtryggð húsnæðislán eru orðin miklu fyrirferðameiri.

Mikilvægar aðgerðir ríkisstjórnar en meira þarf til

Blessunarlega sýnir ríkisstjórnin merki þess að hún skilji hversu viðkvæm efnahagsstaðan er. Í síðustu viku kynntu forsvarsmenn ríkisstjórnarflokkanna áform um aðhaldsaðgerðir í ríkisrekstrinum sem nema um 0,7% af landsframleiðslu. Almennt má fara lofsamlegum orðum um þessi áform. Þau munu skila sér beint til almennings í formi lægri verðbólgu og lægri vaxtalækkana en ella.

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar fólust fyrst og fremst í frestun fjárfestingaáforma, lækkun á ferðakostnaði, almennri aðhaldskröfu og flýtingu á innleiðingu nýs gjaldtökukerfis fyrir ökutæki og eldsneyti. Hér virðist fyrst og fremst verið að teygja sig í þá ávexti sem hanga allra lægst á trjánum.

Ef ríkisstjórninni er alvara með að takast á við verðbólguvandann er nauðsynlegt að gera tvennt. Annars vegar þarf að leggjast í víðtæka skoðun á sértækum hagræðingaraðgerðum og hins vegar þarf að létta á regluverki. Þar að auki ættu sveitarfélög að grípa til aðgerða til að auka framboð á fasteignamarkaði og í leikskólum, en hvort tveggja getur haft áhrif til lækkunar verðbólgu.

Hvað varðar mögulegar hagræðingaraðgerðir mætti líta til skýrslu hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar frá árinu 2013, en fáar af tillögunum voru innleiddar á sínum tíma. Skýrslan er komin nokkuð til ára sinna en margar tillagnanna eru enn viðeigandi. Auk þess væri hægt að skipa nýjan hóp þingmanna til að uppfæra skýrsluna með hliðsjón af þeim breytingum sem hafa orðið á ríkisrekstrinum síðan 2013. Líkur eru til þess að með slíkri aðferðafræði megi með skjótum og skilvirkum hætti draga úr þenslu í hagkerfinu, vinna gegn verðbólgu, ná fram aukinni framleiðni í ríkisrekstri og stuðla að lægri vaxtahækkunum.

Aðgerðir til að létta á reglubyrði eru sérstaklega tímanlegar nú, sökum þess að þær koma einkum fram á framboðshlið hagkerfisins og myndu því sérstaklega vinna gegn neikvæðum efnahagslegum afleiðingum af innrás Rússa í Úkraínu.

Þegar kemur að regluverki er í ýmis horn að líta. Samkvæmt mati OECD frá árinu 2019 er Ísland með þyngstu reglubyrði allra OECD landa þegar kemur að þjónustugreinum. Aðgerðir til að létta á reglubyrði eru sérstaklega tímanlegar nú, sökum þess að þær koma einkum fram á framboðshlið hagkerfisins og myndu því sérstaklega vinna gegn neikvæðum efnahagslegum afleiðingum af innrás Rússa í Úkraínu. Ýmsar hugmyndir til að létta á reglubyrði hafa verið í deiglunni undanfarin ár, þó lítið hafi komið til aðgerða. Hér mætti sérstaklega líta til þess að lagfæra umgjörð samkeppniseftirlits sem er of íþyngjandi og úr takti við tímann, draga úr mestu öfgum bygginga- og hollustureglugerða, innleiða aukna samkeppni á leigubílamarkað og leyfa smásölu áfengis í almennum verslunum en síðastnefnda aðgerðin getur leitt til aukinnar stærðarhagkvæmni og þar af leiðandi framleiðni í smásölu almennt. Í kjölfarið mætti einnig skipa starfshóp til þess að líta til fleiri atriða til að einfalda regluverk, auka framleiðni og vinna gegn verðbólgu á framboðshlið hagkerfisins.

Næstu tvö ár munu ráða miklu um lífskjarasókn næsta áratuginn

Þegar litið er yfir sviðið, á þau óveðurský sem nú hrannast upp víðast hvar í hagkerfum heimsins er ljóst að hagstjórn á komandi tveimur árum eða svo getur ráðið miklu um áframhaldandi lífskjarasókn íslensks almennings næsta áratuginn. Fjármálastjórnin og peningamálastjórnin verða að ganga í takt. Miklu skiptir að rétt sé haldið á spöðunum, þannig að efnahagslífið, almenningur og ríkissjóður komi út úr verðbólgukúfnum og vaxtahækkunarferlinu og geti gripið sem flest sóknarfæri þegar þau bjóðast.

Höfundur er MBA frá Dartmouth og MPA nemi við Harvard háskóla.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Umræðan

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.