Innherji

Ölgerðin tæpum 12 prósentum yfir útboðsgengi í fyrstu viðskiptum

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Bréf Ölgerðarinnar voru tekin til viðskipta í Kauphöllinni í morgun. 
Bréf Ölgerðarinnar voru tekin til viðskipta í Kauphöllinni í morgun.  VÍSIR/VILHELM

Hlutabréfaverð Ölgerðarinnar stendur í rétt tæplega 10 krónum eftir að bréf drykkjarvörufyrirtækisins voru tekin til viðskipta í Kauphöllinni í morgun og er því 11,6 prósentum yfir því útboðsgengi sem bauðst almennum fjárfestum. Viðskipti með bréfin hafa numið rúmum 50 milljónum það sem af er degi. 

Tæplega sjö þúsund hluthafar bættust í hluthafahóp Ölgerðarinnar eftir hlutafjárútboð félagsins sem lauk 27. maí síðastliðinn. Andri Þór Guðmundsson, forstjóri félagsins, hringdi félagið inn á markað í morgun.

Haft var eftir Magnúsi Harðarsyni, forstjóra Nasdaq Iceland, að Ölgerðin hefði sterkar rætur í íslensku samfélagi sem leiðandi fyrirtæki á drykkjar- og matvælamarkaði. „Skráningin felur í sér ný tækifæri með auknum sýnileika og aðgangi að nýjum fjárfestum,“ sagði hann.

Ölgerðin birti í morgun lista yfir tuttugu stærstu hluthafa félagsins. Hann sýnir að tveir sjóðir í stýringu Stefnis keyptu stóran hluta af útboðinu en þeir fara samanlagt með yfir 6 prósenta hlut. 

Horn III, framtakssjóður í stýringu Landsbréfa, er áfram stærsti hluthafinn eins viðbúið var en hlutur sjóðsins lækkar úr rúmum 25 prósentum niður í 17,6 prósent. 

Þá eru Eignarhaldsfélagið Sindrandi, sem er í eigu Boga Þórs Siguroddssonar og Lindu Bjarkar Ólafsdóttur, Akur fjárfestingar, sem er í rekstri Íslandssjóða, með samanlagt um 43 prósenta hlut og OA eignarhaldsfélag, sem er í eigu þeirra Andra Þórs Guðmundssonar, forstjóra Ölgerðarinnar, og Októs Einarssonar, áfram á meðal fjögurra stærstu hluthafanna. 

Einu lífeyrissjóðirnir sem koma nýir inn á listann, báðir með minni eins prósents hlut, eru Birta, Festa. 

Í verðmati greiningarfyrirtækisins Jakobsson Capital á rekstri Ölgerðarinnar, sem Innherji greindi frá, var komist að þeirri niðurstöðu að verðmatsgengi félagsins væri 11,3 krónur á hlut. Það er um 27 prósentum hærri verðmiði á fyrirtækið en í útboðinu þar sem almennum fjárfestum bauðst að kaupa hvern hlut á 8,9 krónur. 

Samkvæmt spá Jakobsson Capital er gert ráð fyrir að hagnaður Ölgerðarinnar fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta (EBITDA) á þessu fjárhagsári, sem nær frá mars 2022 til febrúar árið 2023, muni nema 3,4 milljörðum króna á raungrunni og aukast um rúmlega 120 milljónir frá fyrra ári.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×