Neytendur

Matarkarfan hækkar um allt að 16,6 prósent

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Auður Alfa segir matvöruverslanakeðjurnar ekki þurfa að ráðast í svo gríðarlega miklar verðhækkanir.
Auður Alfa segir matvöruverslanakeðjurnar ekki þurfa að ráðast í svo gríðarlega miklar verðhækkanir. aðsend

Matar- og drykkjarvörur hafa hækkað um allt að 16,6% á síðustu sjö mánuðum. Þetta sýnir ný verðlagskönnun Alþýðusambands Íslands sem birt var í dag en í átta af átta verslunum sem könnunin nær til hækkað vörukarfa ASÍ.

Vörukarfan hækkaði á bilinu 5-17%, mest hjá Heimkaup en minnst í Krónunni. Í tilkynningu frá ASÍ segir að þetta sé í takt við breytingar á vísitölu neysluverðs á sama tímabili sem sýnir 6,2% hækkun á mat- og drykkjarvöru.

„Við svo sem sáum svipaðar hækkanir og svona mikið stökk í verði hérna á fyrstu mánuðum í Covid en þetta eru auðvitað miklar hækkanir á stuttum tíma,“ segir Auður Alfa Ólafsdóttir verkefnisstjóri verðlagseftirlits ASÍ.

Auður segir mjólkurvörur og osta vera það sem hækkar mest.

„Við erum að sjá auðvitað bara að það eru þarna flokkar matvöru að hækka mjög mikið sem vega mjög þungt í innkaupum. Flokkar eins og mjólk, ostar og egg, kjöt og eins brauð og kornvara.“

Hún segir hækkanir sem þessar hafa áhrif á kjör fólks. Þó að ljóst sé að verð á ýmsum aðföngum hafi hækkað til dæmis á áburði sem endurspeglist í hærra verði á mjólk, osti og kjöti þá telur hún engu að síður svigrúm hjá verslunum til að halda aftur af hækkunum.

„Það eru ekki allir kostnaðarþættir að hækka um þessar mundir og ýmislegt sem að hefur líka breyst í rekstrarumhverfi þessar fyrirtækja, matvöruverslana, og fleiri sem að hefur verið til hins betra á síðustu tveimur þremur árum. Til dæmis aukin sjálfvirkni og svo framvegis og svo erum við auðvitað að sjá það að það er bara mjög góð afkoma hjá matvöruverslanakeðjum. Þannig að það rímar ekki alveg við þetta að þessar hækkanir séu óumflýjanlegar. Þetta er alltaf spurning um upp að hvaða marki er eðlilegt að hækkanir á aðföngum komi fram í verðlagi.“


Tengdar fréttir

Verð­bólga í 7,6 prósent og ekki mælst meiri í tólf ár

Vísitala neysluverðs hefur hækkað um 0,77% milli mánaða og stendur nú í 539,5. Matarverð, húsnæðiskostnaður og bensín er á meðal þess sem hefur hækkað umtalsvert frá síðasta mánuði og orsakar hækkun vísitölu neysluverðs, en verðbólga hefur ekki mælst meiri í tólf ár.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×