Umræðan

Fasteignaskattur hækkar úr öllu hófi

Jón Ólafur Halldórsson skrifar

Nýtt fasteignamat hefur verið gefið út sem færir fasteignaeigendum engin gleðitíðindi. Meðalhækkun þeirra gjalda sem fasteignaeigndur þurfa að greiða til sveitarfélaga í formi fasteignaskatta er nær 20 prósent á milli ára. Orsökin eins og allir vita er algerlega óeðlilegt ástand á fasteignamarkaði þar sem fasteignaverð hefur á undanförnum mánuðum hækkað gengdarlaust en fasteignamatið reiknast af meðal söluverði þeirra eigna sem seldar voru í viðkomandi sveitarfélagi á liðnu ári.

Hér er athyglin enn á ný dregin að þeirri lagaumgjörð sem gildir um fasteignaskatt. Fyrir það fyrsta getur það ekki talist eðlilegt að fasteignaskattur ráðist óheft af markaðsvirði eigna, ekki síst við það ástand sem nú ríkir á fasteignamarkaði. Að fasteignabóla, sem vafasamt er hvort innistæða er fyrir, hafi svo víðtæk áhrif á þennan skattstofn fær vart staðist. En það er þó fyrst og fremst skattprósentan sem aðkallandi er að breytist. Samkvæmt lögum um tekjustofna sveitarfélaga getur fasteignaskattur numið allt að 1,32 prósent af fasteignamati alls almenns atvinnuhúsmæðis. Til viðbótar hafa svo sveitarstjórnir heimild til að hækka þessa skattprósentu um 25 prósent.

Markaðsverðmæti húsnæðis er stofn fasteignaskatts hér á landi eins og á öðrum Norðurlöndum. Það er hins vegar sá reginmunur á að skattheimtan þar er mun minni vegna lægri álagningarprósentu og sérstakra varúðarreglna húsnæðiseigendum í vil. Væru slíkar varúðarreglur í gildi hér á landi myndu þær miklu hækkanir á fasteignaskatti sem nú eru boðaðar, aldrei ná fram að ganga.

Það getur ekki talist eðlilegt að fasteignaskattur ráðist óheft af markaðsvirði eigna, ekki síst við það ástand sem nú ríkir á fasteignamarkaði. Að fasteignabóla, sem vafasamt er hvort innistæða er fyrir, hafi svo víðtæk áhrif á þennan skattstofn fær vart staðist.

Forsvarsmenn fjölmargra sveitarfélaga, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu, hafa stigið fram og lýst því yfir að nýtt fasteignamat muni ekki hafa áhrif til hækkunar á fasteignaskatti í viðkomandi sveitarfélagi. Full ástæða er til að fagna slíkum yfirlýsingum. Forsvarsmenn stærsta sveitarfélagsins, Reykjavíkur, hafa hins vegar lítið látið hafa eftir sér í því efni, en innan borgarmarkanna eru rúmlega 50 prósent alls atvinnuhúsnæðis í landinu. Eigendur atvinnuhúsnæðis í Reykjavík hljóta að fylgjast náið með því hvaða ákvörðun nýr meirihluti í borgarstjórn tekur í þeim efnum.

Hver sem niðurstaðan verður hjá nýrri borgarstjórn kemur í ljós. Aðalatriði þessa mál er að nú þegar verði ráðist í breytingar á þeirri lagaumgjörð sem gildir um fasteignaskatt. Fyrsti liðurinn í þeirri breytingu væri að afnema þá heimild sem sveitarstjórnir hafa til 25 prósent hækkunar á skattstofni fyrir atvinnuhúsnæði og að innleiða varúðarreglur að norrænni fyrirmynd sem kæmu í veg fyrir þær stórfelldu hækkanir á fasteignaskatti sem nú blasa við. Stjórnvöld geta ekki lengur komið sér hjá því að taka á þessu stóra máli.

Höfundur er formaður Samtaka verslunar og þjónustu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Umræðan

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.