Körfubolti

Sendi Kobe heitnum skila­­boð áður en hann kom Boston í úr­­slit NBA

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Jayson Tatum var frábær í einvíginu gegn Miami Heat. Ásamt því að senda Kobe Bryant heitnum skilaboð að oddaleiknum loknum þá lék hann með svitaband Kobe til heiðurs.
Jayson Tatum var frábær í einvíginu gegn Miami Heat. Ásamt því að senda Kobe Bryant heitnum skilaboð að oddaleiknum loknum þá lék hann með svitaband Kobe til heiðurs. Andy Lyons/Getty Images

Jayson Tatum er stór ástæða þess að Boston Celtics er komið í úrslit NBA-deildarinnar í körfubolta í fyrsta sinn síðan árið 2010. Hann sendi Kobe Bryant heitnum skilaboð fyrir oddaleik Celtics og Miami Heat en Kobe var hálfgerður lærifaðir Tatum.

Boston Celtics er mætt í úrslit NBA-deildarinnar ásamt Golden State Warriors. Boston fór erfiðu leiðina en liðið fór alla leið í oddaleik gegn Jimmy Butler og félögum í Miami Heat í úrslitaleik Austurdeildarinnar.

Má færa ágætis rök fyrir því að Tatum sé helsta ástæða þess að Boston er komið alla leið í úrslit í fyrsta sinn síðan árið 2010 en hann hefur verið frábær á leiktíðinni. Þá var hann valinn verðmætasti leikmaður úrslitaeinvígisins gegn Miami.

„Þetta er mikill heiður. Þetta virðist ekki enn vera raunverulegt. Ég er mjög hamingjusamur og þakklátur,“ sagði Tatum í viðtali eftir oddaleikinn.

„Þó ég hafi verið í deildinni í dágóðan tíma þá man ég enn þegar ég var í menntaskóla að láta mig dreyma um augnablik sem þessi. Ég er að lifa drauminn,“ bætti Tatum við. Áður en hann ræddi svitaband sem hann lék með í leiknum, það var tileinkað Kobe Bryant.

„Hann var fyrirmyndin mín, innblásturinn minn, uppáhaldsleikmaðurinn minn. Skórnir sem ég hef verið í undanfarna leiki voru tileinkaðir honum. Fyrir leikinn í dag horfði ég á myndband af nokkrum af stærstu augnablikum hans á ferlinum. Þetta var stærsti leikurinn á ferli mínum til þessa og ég vildi spila með armbandið til að heiðra hann og deila augnablikinu á einhvern hátt. Það gekk upp.“

Eftir leik sendi Tatum svo skilaboð á Kobe Bryant heitinn.

Jayson Tatum er ásamt Boston Celtics kominn í úrslitaeinvígi NBA-deildarinnar. Þar bíður þeirra ógnarsterkt lið Golden State Warriors. Það skyldi þó enginn veðja gegn Tatum og Boston, þeim virðast allir vegir færir þessa dagana.


NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×