Innherji

Lánað 80 milljarða til fyrirtækja á fyrstu fjórum mánuðum ársins

Hörður Ægisson skrifar
Bankarnir hafa veitt umtalsvert meira af nýjum útlánum til fyrirtækja það sem af er þessu ári heldur en þeir gerðu samanlagt á árunum 2020 og 2021.
Bankarnir hafa veitt umtalsvert meira af nýjum útlánum til fyrirtækja það sem af er þessu ári heldur en þeir gerðu samanlagt á árunum 2020 og 2021. Foto: Vilhelm Gunnarsson/Vilhelm Gunnarsson

Ekkert lát er á stöðugum vexti í nýjum útlánum bankanna til fyrirtækja sem námu yfir 25 milljörðum króna í apríl, litlu minna en í mánuðinum þar á undan, á meðan áfram heldur að hægja á íbúðalánum til heimila samtímis hækkandi vöxtum Seðlabankans.

Ný útlán innlánsstofnana til fyrirtækja, að frádregnum uppgreiðslum, eru þannig samtals yfir 80 milljarðar króna á fyrstu fjórum mánuðum ársins. Það er meiri útlánaaukning heldur en sem nemur öllum nýjum lánum bankanna til atvinnulífsins á árunum 2020 til 2021 þegar farsóttinn stóð yfir.

Þetta má lesa út úr nýjum tölum Seðlabanka Íslands um bankakerfið, sem birtust í morgun, en ný lán með veði í íbúð námu 11,9 milljörðum í apríl og minnkuðu um 4 milljarða frá fyrri mánuði. Íbúðalán bankanna voru sem fyrr einkum drifin áfram af óverðtryggðum lánum á föstum vöxtum auk þess eru heimilin einnig farin að sækja talsvert í verðtryggð lán á föstum vöxtum. Verðbólga hefur farið vaxandi að undanförnu og mælist nú 7,2 prósent en flestir greinendur ásamt Seðlabankanum spá því að hún muni fara yfir 8 prósent síðar á árinu.

Húsnæðislánavextir viðskiptabankanna hafa hækkað skarpt á síðustu vikum og mánuðum eftir vaxtahækkanir Seðlabankans – stýrivextir hækkuðu úr 2,75 prósent í 3,75 prósent í byrjun síðasta mánaðar – og þá er eins sögulega lítið framboð af fasteignum til sölu á höfuðborgarsvæðinu.

Hrein ný útlán bankakerfisins í apríl námu samtals 37,3 milljörðum og minnkuðu nokkuð frá fyrri mánuði þegar þau voru tæplega 61 milljarður. Útlánavöxturinn hafði þá verið sá mesti sem mælst hefur í einum mánuði frá því að Seðlabankinn byrjaði að halda utan um tölurnar í byrjun árs 2013.

Ný útlán bankanna til fyrirtækja voru samtals 25,4 milljarðar í síðasta mánuði og minnkuðu um liðlega tvo milljarða frá því í mars. Mestur var útlánavöxturinn til fyrirtækja í þjónustu, verslun og iðnaði. Stöðug útlánaaukning bankanna til atvinnulífsins endurspeglar aukinn fjárfestingarvilja fyrirtækja eftir faraldurinn og þá segjast æ fleiri fyrirtæki skorta starfsfólk og erlendu vinnuafli fjölgar sömuleiðis hratt.

Í síðustu Peningamálum Seðlabankans kom fram að könnun bankans á fjárfestingaráformum fyrirtækja sem framkvæmd var í febrúar og mars á þessu ári bendi til þess að þau áformi að auka við fjárfestingu sína í ár um liðlega 30 prósent að nafnvirði frá fyrra ári. Það er mun meiri aukning fjárfestingarútgjalda en kom fram í samsvarandi könnun Seðlabankans frá því í september. Niðurstöðurnar eru sagðar gefa til kynna að vöxtur verði í flestum atvinnugreinum en framlag fjármunamyndunar í ferðaþjónustu og flutningastarfsemi vegur þar hvað þyngst.

Vaxtalækkanir Seðlabankans til að bregðast við efnahagsáhrifum farsóttarinnar í upphafi árs 2020 – vextir lækkuðu þá á skömmum tíma úr 3 prósentum í 0,75 prósent – örvuðu mjög íbúðamarkaðinn og heimilin flykktust til bankanna, sem buðu þá hagstæðustu vaxtakjörin á markaði, til að sækja sér lán til fasteignakaupa eða endurfjármögnunar. Á sama tíma greiddu sjóðsfélagar hins vegar upp íbúðalán sín hjá lífeyrissjóðunum en nú eru vísbendingar um að heimilin séu á ný farin að leita til sjóðanna vegna lána til íbúðakaupa.

Heimilin hafa í vaxandi mælið sagt skilið við að taka lán til fasteignakaupa á breytilegum vöxtum hjá bönkunum samtímis aukinni verðbólgu og væntingum um enn frekari vaxtahækkanir Seðlabankans. Frá því um mitt síðasta ár hefur þannig verið lítil aukning í veitingu nýrra íbúðalána bankanna á breytilegum vöxtum á meðan slík lán á föstum vöxtum hafa vaxið um meira en 110 milljarða króna yfir sama tímabil.

Eftir að sumir lífeyrissjóðanna fóru að bjóða upp á betri kjör á óverðtryggðum íbúðalánum en bankarnir hefur vöxturinn í slíkum lánum margfaldast hjá sjóðunum. Í mars á þessu ári námu ný óverðtryggð lán lífeyrissjóðanna til heimila, að frádregnum uppgreiðslum, samtals 9.149 milljónum króna og jukust þau um meira en þrjá milljarða frá fyrri mánuði. Var það mesta útlánaaukning í óverðtryggðum íbúðalánum sjóðanna sem mælst hefur í einum mánuði.

Í viðtali við Innherja eftir vaxtaákvörðunarfund Seðlabankans í byrjun síðasta mánaðar sagðist Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri hafa áhyggjur af því að samhliða hækkandi vöxtum væru heimilin að færa sig í auknum mæli úr nafnvaxtalánum yfir í verðtryggð lán í því skyni að minnka mánaðarlega greiðslubyrði sína.

„Viðskiptabankarnir hafa verið að lækka kjör sín á verðtryggðum íbúðalánum og þá hafa lífeyrissjóðirnir einnig verið að gera sig gildandi á nýjan leik á þessum markaði með því að undirbjóða bankanna að einhverju marki. Við höfum haft áhyggjur af þessari þróun,“ sagði Ásgeir.


Tengdar fréttir

Út­lána­skrið gæti hvatt Seðla­bankann enn frekar til að grípa fast í taumana

Kraftmikill útlánavöxtur bankanna í mars er enn eitt merkið um að efnahagsumsvif séu meiri en áður var búist við og því eru auknar líkur á því að Seðlabanki Íslands bregðist harkalega við aukinni verðbólgu á vaxtaákvörðunarfundi bankans í næstu viku. Þetta segir Stefán Broddi Guðjónsson, sérfræðingur hjá markaðsviðskiptum Arion banka.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×