Innherji

Hersir hverfur frá úttekt á útboði ÍSB eftir ábendingu um „læk“

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Hersis Sigurgeirsson, dósent í fjármálum við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, og Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslunnar. 
Hersis Sigurgeirsson, dósent í fjármálum við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, og Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslunnar. 

Hersis Sigurgeirsson, dósent í fjármálum við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og ráðgjafi fyrir Seðlabanka Íslands, hefur látið af störfum sem ráðgjafi við úttekt Ríkisendurskoðunar á sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka eftir að Bankasýslan gerði athugasemd við að hann hefði „lækað“ við færslu á Facebook sem varðaði útboðið.

Hersir greinir frá þessu á Facebook-síðu sinni fyrr í dag en þar segist hann hafa fengið símtal frá ríkisendurskoðanda í fyrradag um að honum hefði borist bréf frá Bankasýslunni, þrjár blaðsíður að lengd, sem var sent af starfsmanni stofnunarinnar og forstjóra hennar, Jóni Gunnari Jónssyni. Í bréfinu var bent á að Hersir hefði sett „læk“ á tiltekna færslu á Facebook sem varðaði útboðið.

Samkvæmt upplýsingum Innherja var umrædd færsla skrifuð af Marinó G. Njálssyni og fjallaði hún um kynningu á útboði Íslandsbanka sem Bankasýslan hélt fyrir tvær þingnefndir dagana 21. og 24. Febrúar.

„Haldi einhverjir að glæran veiti Bankasýslunni syndaaflausn þá fer því fjarri,“ segir í færslu Marinós og vísar hann þar til glæru þar sem tilboðsfyrirkomulag útboðsins var útskýrt. „Ef eitthvað er, þá sannar glæran að aðferðin var illa kynnt, var illa skilgreind og bauð upp á það klúður sem varð.“

Hersir segist hafa tekið að sér þetta verkefni til að leggja sitt af mörkum til að gera úttektina betri. „Þegar forstjóri og starfsmenn Bankasýslunnar eru farnir að verja tíma sínum í að rekja ferðir mínar á samfélagsmiðlum og tilkynna skriflega, rafrænt undirritað, um „like finnst mér þó ástæða til að staldra við. Ég kann ekki við slíkt eftirlit,“ segir Hersir.

Það er alvarlegt mál, bætir hann við, þegar starfsmenn ríkisstofnunar telja eðlilegt að leggjast í rannsókn á skoðunum ráðgjafa óháðra úttektaraðila.

„Ég sé ekki aðra skýringu á bréfaskrifum Bankasýslunnar en að hún telji sig geta notað þau til að kasta rýrð á úttekt Ríkisendurskoðunar ef einhverjar niðurstöður hennar verða stofnuninni ekki að skapi. Það hugnast mér ekki og því ákvað ég í gær að ljúka aðkomu minni að úttektinni.“

Fjármála- og efnahagsráðherra fór þess á leit við Ríkisendurskoðun að stofnunin gerði úttekt á því hvort sala á hlutum ríkisins í Íslandsbanka 22. mars hefði samrýmst lögum og góðum stjórnsýsluháttum.

Samkvæmt lögum um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga hefur ríkisendurskoðandi m.a. það hlutverk að hafa eftirlit með framkvæmd samninga sem eru gerðir við einkaaðila og hafa eftirlit með starfsemi og árangri ríkisaðila.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×