Innherji

Lengri líf­aldur setur mark sitt á skuld­bindingar líf­eyris­sjóða

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Tekist var á um aldurtengdar breytingar á lífeyrisréttindum á ársfundi Gildis.
Tekist var á um aldurtengdar breytingar á lífeyrisréttindum á ársfundi Gildis. VÍSIR/VILHELM

Ársskýrslur lífeyrissjóða bera þess merki að nýjar forsendur um lengri lífaldur hafi skapað aukið ójafnvægi milli áfallinna skuldbindinga og framtíðarskuldbindinga. Sumir lífeyrissjóðir hafa brugðið á það ráð að lækka áunnin réttindi yngri sjóðfélaga meira heldur þeirra sem eldri eru en ekki er einhugur um að það sé sanngjörn leið til að bregðast við ójafnvæginu. 

Að tillögu Félags íslenskra tryggingastærðfræðinga gaf fjármálaráðuneytið út og staðfesti nýjar líftöflur í lok árs 2021 en þær byggja á spá um auknar lífslíkur í framtíðinni. Fram að því höfðu skuldbindingar sjóðanna verið reiknaðar út frá lífslíkum sem byggðu á reynslu fortíðar en ekki spá til framtíðar.

Flestir lífeyrissjóðir hafa innleitt nýju forsendurnar og hafa þær haft veruleg áhrif á tryggingafræðilegastöðu sjóðanna sem er mælikvarði á getu þeirra til að þeirra til að standa við skuldbindingar sínar um greiðslu lífeyris.

Tryggingafræðileg staða skiptist í tvennt. Annars vegar er það áfallin staða, sem segir fyrir um hvort eignir viðkomandi lífeyrissjóðs séu nægar til þess að mæta réttindum sem sjóðurinn hefur nú þegar lofað sjóðfélögum. Hins vegar framtíðarstaða sem felur í sér mat á áætluðum iðgjöldum núverandi sjóðfélaga og réttindum, sem þeir munu ávinna sér með áframhaldandi greiðslu iðgjalda til lífeyrissjóðsins.

Samkvæmt ársskýrslum átta stærstu lífeyrissjóða landsins hafa áfallnar skuldbindingar þeirra aukist um samtals 300 milljarða króna vegna innleiðingar á nýjum reiknireglum. Þannig hefur áfallin staða, þ.e. jafnvægið milli eigna og skuldbindinga, versnað um 2,4 prósentustig að meðaltali þrátt fyrir að árið 2021 hafi verið óvenjugott ár hvað varðar ávöxtun eigna.

Þá eru ótalin áhrif á framtíðarskuldbindingar sjóðanna sem eru hlutfallslega meiri en áhrifin á áfallnar skuldbindingar. Erfiðara er að reikna út nákvæmar upphæðir þegar kemur að áhrifum nýrra reiknireglna á framtíðarskuldbindingar en í tilfelli Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, svo dæmi sé tekið, hækkuðu heildarskuldbindingar um tæpa 119 milljarða króna vegna breyttra forsendna og þar af hækkuðu áfallnar skuldbindingar um 55 milljarða.

Framtíðarstaða átta stærstu sjóðanna versnaði að jafnaði um 9,8 prósentustig milli ára og tryggingafræðileg staða, þ.e. bæði áfallin staða og framtíðarstaða, versnaði að meðaltali um 5,3 prósentustig.

Afleiðingin af þessum breytingum er sú að gjáin milli áfallinna skuldbindinga og framtíðarskuldbindinga hefur gliðnað. Hjá Gildi, þriðja stærsta lífeyrissjóðir landsins, var áfallin staða jákvæð um 12,9 prósent eftir breytingarnar en framtíðarstaðan neikvæð um 12,6 prósent.

Í ársskýrslu sjóðsins kom fram í ávarpi Gylfa Gíslasonar stjórnarformanns að staða sjóðsins væri í einföldu máli ósjálfbær til framtíðar.

„Og því er verið að lofa yngri kynslóðum hærri lífeyri en hægt er að standa við. Á sama hátt má segja að eldri kynslóðir séu ekki að njóta þess að staða sjóðsins í eignum umfram áfallnar skuldbindingar er verulega jákvæð. Við þessu ójafnvægi verður að bregðast,“ sagði Gylfi.

Hitamál á ársfundi Gildis

Á ársfundi Gildis voru því lögð fram og samþykkt tillaga um að viðmiðunaraldur ellilífeyris héldist óbreyttur en áunnin réttindi yrðu lækkuð háð aldri svo áfallnar skuldbindingar héldust óbreyttar við innleiðingu á nýjum lífslíkum.

Væntar mánaðarlegar lífeyrisgreiðslur lækka þannig mismunandi eftir árgöngum vegna mismunandi væntinga um lífaldur þeirra. Þar af leiðandi verður breytingin mest hjá yngstu árgöngunum sem munu samkvæmt spám lifa lengur en þær kynslóðir sem eldri eru.

Tillögunni var mótmælt á ársfundinum af Bjarna Guðmundssyni tryggingastærðfræðingi sem lagði áherslu á að í samtryggingu fælist réttur til að fá greidd réttindi á tilteknum tíma í tilteknu magni. Þau réttindi væru stjórnarskrárvarin og tryggð með öllum eignum sjóðsins

Í fundargerð ársfundarins er haft eftir Bjarna að ekki sé hægt að ánafna ákveðnum hluta til ákveðinna árganga heldur ættu allir tilkall til allra eigna. Bjarni sagði Gildi aflögufæran til að standa við öll þau lífeyrisloforð sem hann hefði gefið út og lagði til að áunnin réttindi allra hækkuðu um 6,3 prósent.

Bjarni sagði á móti að ekkert hefði komið fram sem sýndi að réttindi yngri sjóðfélaga væru á nokkurn hátt of mikil í þessu samhengi.

Árni Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gildis, steig upp í pontu og sagði ummæli Bjarna um að verið væri að svíkja lífeyrisrétt sjóðfélaga villandi. Þá væri flöt hækkun ekki sú sanngirnisleið sem Bjarni vildi vera láta.

Bjarni sagði á móti að ekkert hefði komið fram sem sýndi að réttindi yngri sjóðfélaga væru á nokkurn hátt of mikil í þessu samhengi. Hann sagði jafnframt að aldrei hefði það áður verið gert þannig að breytingar væru gerðar með mismunandi hætti gagnvart mismunandi sjóðfélögum.

Áþekkar tillögur voru samþykktar á ársfundum Lífeyrissjóðs verzlunarmanna og Almenna lífeyrissjóðsins í mars.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.