Klinkið

Sænska netverslunin Boozt fjárfestir í Dropp á Íslandi

Ritstjórn Innherja skrifar
Hermann Haraldsson, forstjóri Boozt. 
Hermann Haraldsson, forstjóri Boozt.  Aðsend

Boozt, stærsta netverslunin á Norðurlöndunum, hefur bæst við hluthafahóp íslenska fyrirtækisins Dropp, sem býður upp á afhendingu á vörum netverslana, eftir að hafa tekið þátt í nýlegri hlutafjáraukningu. Eftir fjárfestinguna tók Hermann Haraldsson, forstjóri Boozt, sæti í stjórn Dropp.

Hermann var á dögunum valinn viðskiptafræðingur ársins af Félagi viðskipta- og hagfræðinga. Hann tók þátt í stofnun Boozt fyrir ellefu árum síðan en markaðsvirði fyrirtækisins, sem er skráð á markað í Svíþjóð og Danmörku, er um 80 milljarðar íslenskra króna í dag.

Netverslunin hóf sölu á Íslandi í fyrra og náði á örskömmum tíma að velta Asos úr sessi sem stærsta fataverslunin á netinu hér á landi. Á tímabilinu júlí til desember nam salan á Íslandi 900 milljónum króna.

Stærsti hluthafi Dropp er eftir sem áður smásölufélagið Festi en aðrir stórir hluthafar eru Hrólfur Andri Tómasson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, Guðjón Karl Reynisson, stjórnarformaður Festi og Jón Björnsson, forstjóri Origo, en hann situr jafnframt í stjórn Boozt. 

Í lok mars var greint frá því að N1 hefði hafið afhendingar á vörum frá Boozt í samstarfi við Dropp og gætu viðskiptavinir Boozt því nálgast sendingar á öllum þjónustustöðvum N1 um land allt.


Klinkið er vettvangur Innherja þar sem dregin er upp mynd og veitt innsýn í bakherbergi viðskipta, stjórnmála og atvinnulífs á landinu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.