Makamál

Ein undir pari: Heldur fyrsta golfmót einhleypra

Ása Ninna Pétursdóttir skrifar
Hrafnhildur Arnardóttir stendur fyrir Golfmóti einhleypra þann 28. maí á Kiðjabergi. 
Hrafnhildur Arnardóttir stendur fyrir Golfmóti einhleypra þann 28. maí á Kiðjabergi.  Silla Páls/Getty

„Það er bara oft þannig að pör gleyma að hugsa um þá sem eru einhleypir og bjóða frekar öðrum pörum með sér í svona hobbí,“ segir Hrafnhildur Arnardóttir í samtali við Vísi. 

Segir einhleypa vini oft gleymast

Hugmyndina að koma af stað sér golfmóti bara fyrir einhleypa segir Hrafnhildur hafa kviknað nýlega út frá eigin reynslu en sjálf hefur hún verið einhleyp í rúm fimm ár. 

„Mér hefur fundist vanta vettvang fyrir einhleypt fólk að hittast, sérstaklega þegar kemur að áhugamálunum.“

Hún segir það ákveðna lensku að pör sæki meira í önnur pör þegar kemur að félagsskap og viðburðum og því verði þeir einhleypu oft á tíðum útundan. 

Ég veit að þetta er ekki illa meint hjá fólki sem er í sambandi, en þetta þróast oft á tíðum svona að einhleypum vinum er kannski síður boðið með.

Ástin gæti poppað upp á holu í höggi

Hrafnhildur hefur sjálf stundað golf í um fjögur ár og segist hafa mikla trú á því að sér golfmót fyrir einhleypa sé eitthvað sem mörgum finnist vanta. 

„Það eru til sérstök paramót svo afhverju ekki að bjóða upp á golfmót bara fyrir einhleypa?“ segir Hrafnhildur og bætir því við að hún hafa strax fundið fyrir miklum áhuga á mótinu. 

Mótið verður haldið þann 28. maí á golfvellinum Kiðbjabergi og eru pláss fyrir 72 einstaklinga og er aldurstakmarkið 25 ár. 

„Það verða mjög veglegir vinningar í boði og svo er súpa og brauð innifalið í mótsgjaldinu sem er 9000 krónur,“ segir Hrafnhildur sem hvetur einhleypa einstaklinga sem hafa áhuga á golfi að slá til. 

Þeir sem hafa áhuga geta skráð sig til í gegnum netfangið: golfmoteinhleypra@gmail.com og freistað þessa að taka þátt og er aldrei að vita nema að ástin poppi upp á holu í höggi. 
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.