Klinkið

Leggur til að Sigríður komi inn í stjórn Haga í stað Katrínar Olgu

Ritstjórn Innherja skrifar
Sigríður var sviðsstjóri þjónustu hjá Völku á árunum 2019 til 2021 og þar áður framkvæmdastjóri rekstrar- og upplýsingatæknisviðs Íslandsbanka í um áratug.
Sigríður var sviðsstjóri þjónustu hjá Völku á árunum 2019 til 2021 og þar áður framkvæmdastjóri rekstrar- og upplýsingatæknisviðs Íslandsbanka í um áratug.

Tilnefningarnefnd Haga hefur lagt til að Sigríður Olgeirsdóttir, stjórnarmaður í Opnum kerfum og varamaður í bankaráði Landsbankans, verði kjörin ný inn í stjórn smásölurisans á aðalfundi félagsins sem fer fram 1. júní næstkomandi. Að öðru leyti mælir nefndin með því að stjórn Haga verði óbreytt.

Sigríður, sem er einnig meðal annars stjórnarmaður í Íslandshótelum og situr í tilnefningarnefnd Sjóvá, mun þá koma inn í stjórn Haga í stað Katrínar Olgu Jóhannesdóttur en fram kemur í skýrslu nefndarinnar að hún hafi ekki gefið kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu. Katrín Olga hefur verið í stjórn Haga frá því í janúar árið 2019.

Samtals bárust tilnefningarnefndinni tíu framboð til stjórnar. Þeir frambjóðendur sem eru ekki tilnefndir hafa nú þegar dregið framboð sitt til baka.

Fram kemur í skýrslu tilnefningarnefndarinnar að í samtölum við forstjóra og stjórnarmenn Haga hafi komið fram að stjórnendur félagsins séu að leggja sérstaka áherslu á stafræna þróun og markaðsmál.

„Nýlegar ákvarðanir, svo sem að stækka verulega starfsmannahópinn sem vinnur að þróun á sviði upplýsingatækni og stafrænnar vegferðar, sýnir að þar er vinnan að fara í fullan gang. Í ljósi þessa varð niðurstaðan, að leitast við að tryggja enn frekar fjölbreytni í menntunarbakgrunn og reynslu frambjóðenda allra með sérstakri áherslu á að auka við þekkingu á stafrænni tækni og úrvinnslu gagna,“ segir í rökstuðningi nefndarinnar.

Nefndin hafi því lagt til að Sigríður kæmi ný inn í stjórnina þar sem hún væri með marktæka reynslu af stafrænum umbreytingum og upplýsingatækni.

Aðrir stjórnarmenn Haga, sem nefndin mælir með, eru Davíð Harðarson, Eiríkur S. Jóhannsson, Eva Bryndís Helgadóttir og Jensina Kristín Böðvarsdóttir.

Vörusala Haga á síðasta fjórðungi, sem náði frá desember til loka febrúar, nam 35,3 milljörðum króna og jókst um ríflega 15 prósent frá fyrra rekstrarári. EBITDA nam 2.442 milljónum króna og hagnaður var 724 milljónum, sem var nokkuð umfram áætlanir stjórnenda.

Hlutabréfaverð Haga hefur hækkað um rúmlega sjö prósent frá áramótum og markaðsvirði félagsins stendur í 84 milljörðum króna. Stærstu hluthafar smásölurisans eru Gildi, LSR og Lífeyrissjóður verslunarmanna. Samanlagt eiga íslenskir lífeyrissjóðir um 75 prósenta hlut í Högum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.