Viðskipti innlent

Endur­skoða reglur eftir kaup starfs­manna á hlutum í Ís­lands­banka

Eiður Þór Árnason skrifar
Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka.
Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka. Aðsend

Til stendur að gera breytingar á reglum Íslandsbanka um verðbréfaviðskipti starfsmanna eftir gagnrýni á þátttöku þeirra í lokuðu útboði Bankasýslunnar á hlutum ríkisins í bankanum. Þetta segir Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka.

„Mikil umræða hefur skapast í samfélaginu um söluferlið og það fyrirkomulag sem notast var við. Meðal annars hefur komið fram gagnrýni á þátttöku starfsmanna bankans í útboðinu. Því tökum við alvarlega og stendur vinna yfir við breytingar á reglum bankans varðandi verðbréfaviðskipti starfsmanna,“ segir Birna í fjárhagsuppgjöri bankans sem birt var í gær. 

Fimm innlendir söluráðgjafar voru meðal þeirra sem sáu um að selja 22,5% hlut ríkisins í Íslandsbanka. Fljótlega eftir að útboðinu lauk tilkynnti Íslandsbanki til Kauphallar að þrír einstaklingar tengdir bankanum hafi tekið þátt í útboðinu. Þar var um að ræða Ara Daníelsson, stjórnarmann í Íslandsbanka, Ásmund Tryggvason, framkvæmdastjóra fyrirtækja og fjárfestasviðs, og Ríkharð Daðason, sambýlismann markaðs- og samskiptastjóra bankans.

Tilkynntu ekki kaupin

Tveimur vikum síðar greindi fréttastofa frá því að Geir Oddur Ólafsson, starfsmaður verðbréfamiðlunar Íslandsbanka, hafi keypt í útboðinu fyrir rúma milljón króna en verðbréfamiðlun bankans var á meðal umsjónaraðila útboðsins.

Sömuleiðis kom fram að Brynjólfur Stefánsson, sjóðsstjóri Íslandssjóða sem er í eigu Íslandsbanka, hafi keypt fyrir 4,5 milljónir króna. Hvorki var tilkynnt um kaup Geirs né Brynjólfs en að sögn Íslandsbanka var það mat stjórnenda að ekki væri um innherja að ræða.

Auk fyrrgreindra starfsmanna keyptu þrír aðrir starfsmenn hlut í útboði Bankasýslunnar.

Eigandi annars söluaðila keypti sömuleiðis hlut

Sömuleiðis hefur verið gagnrýnt að eigandi helmingshlutar í Íslenskum verðbréfum hafi keypt fyrir tugi milljóna króna í bankanum.

Íslensk verðbréf voru á meðal umsjónaraðila útboðsins en Þorbjörg Stefánsdóttir eiginkona Jóhanns M. Ólafssonar, framkvæmdastjóra Íslenskra verðbréfa, á helmingshlut í fyrirtækinu.

ÍV – eignastýring, sem er í eigu Íslenskra verðbréfa, keypti fyrir tæpar 130 milljónir króna í útboðinu og Björg Finance fyrir 22,5 milljón króna en það félag er í eigu Þorbjargar.


Tengdar fréttir

Rík­harður keypti í Ís­lands­banka fyrir 27 milljónir

Ríkharður Daðason, fagfjárfestir og fyrrverandi atvinnumaður í fótbolta, keypti tæplega 231 þúsund hluti í Íslandsbanka í lokuðu útboði Bankasýslu ríkisins á þriðjudag fyrir tæpar 27 milljónir króna.

Eigendur og starfsmenn umsjónaraðila útboðs meðal kaupenda

Eigandi helmingshlutar í Íslenskum verðbréfum sem sá meðal annars um að selja hlut ríkisins í Íslandsbanka keypti fyrir tugi milljóna króna í bankanum. Starfsmaður verðbréfamiðlunar Íslandsbanka sem var líka umsjónaraðili útboðsins keypti hlut en er ekki talinn innherji að mati stjórnenda bankans.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×