Innherji

Arion á­formar stór­fellda upp­byggingu á Blika­stöðum

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Bankinn eignaðist landið árið 2009 þegar félag, sem hafði keypt það á 11,8 milljarða króna árið 2008, varð gjaldþrota.
Bankinn eignaðist landið árið 2009 þegar félag, sem hafði keypt það á 11,8 milljarða króna árið 2008, varð gjaldþrota.

Arion banki skrifar í dag undir samkomulag við Mosfellsbæ um uppbyggingu á Blikastaðalandi sem miðar við að þar rísi allt að 3.700 íbúðir. Þetta kom fram í uppgjörskynningu bankans í morgun.

„Þetta samkomulag markar þáttaskil þar sem Arion banki og Mosfellsbær leggja verulega af mörkum til uppbyggingar á nýju húsnæði á höfuðborgarsvæðinu,“ segir í kynningunni.

Samkomulagið gerir ráð fyrir 3.500 til 3.700 íbúðum og stóru svæði fyrir atvinnuhúsnæði, ásamt skólum leikskólum og íþróttamiðstöð.

„Arion banki hefur skuldbundið sig til að taka þátt í kostnaði við innviði,“ sagði Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka á fundinum, en bankinn mun gera frekari grein fyrir áformunum í náinni framtíð.

Blikastaðaland, sem er um 900 þúsund fermetrar að stærð og er eitt stærsta óþróaða landið á höfuðborgarsvæðinu, er í eigu Blikastaðalands ehf., dótturfélags Arion banka. 

Bankinn eignaðist landið árið 2009 þegar félag, sem hafði keypt það á 11,8 milljarða króna árið 2008, varð gjaldþrota. Í ársreikningi Blikastaðalands ehf. fyrir árið 2020 er eignin bókfærð á 5 milljarða króna.

Uppbygging Blikastaðalands hefur lengi verið á teikniborðinu en hún hangir saman við uppbyggingu Borgarlínunnar sem mun fara gegnum svæðið.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.