Innherji

Sidekick verðmetið á yfir 40 milljarða í fjármögnun leiddri af Novator

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Tryggvi Þorgeirsson, forstjóri Sidekick Health.
Tryggvi Þorgeirsson, forstjóri Sidekick Health. VÍSIR/VILHELM

Heilbrigðistæknifyrirtækið Sidekick Health hefur tryggt sér 55 milljón Bandaríkjadala fjármögnun, sem samsvarar rúmlega sjö milljörðum íslenskra króna, til þess að styðja við áframhaldandi vöruþróun og vöxt, sérstaklega í Bandaríkjunum. Samkvæmt heimildum Innherja var fyrirtækið verðmetið á 300 til 350 milljónir dala í viðskiptunum, eða hátt í 45 milljarða króna.

Nýja fjármögnin er leidd af Novator Ventures, en erlendu vísisjóðirnir Wellington Partners og Asabys Partners sem leiddu 20 milljón Bandaríkjadala fjármögnun félagsins árið 2020 taka þátt, auk Frumtak Ventures.

Sidekick þróar heilbrigðismeðferðir til að bæta heilsu fólks með ýmsa langvinna sjúkdóma svo sem hjarta- og æðasjúkdóma, bólgusjúkdóma og krabbamein. Fyrirtækið starfar einkum með alþjóðlegum lyfjafyrirtækjum þar sem lausnin hefur verið samþætt lyfjameðferðum með góðum árangri, auk þess sem fyrirtækið vinnur með veitendum sjúkratrygginga í Bandaríkjunum. Eitt stærsta sjúkratryggingafélag Bandaríkjanna bætist einnig í fjárfestahópinn samhliða vaxandi viðskiptasambandi fyrirtækjanna.

Samtals hefur Sidekick sótt rúmlega tíu milljarða króna til innlendra og erlendra vísisjóða á tæpum tveimur árum til að styðja við vöxt félagsins í Evrópu og Bandaríkjunum, en félagið hefur nú einnig sett upp starfstöðvar í Berlín, Boston og Stokkhólmi.

Starfsmannafjöldinn hefur aukist úr rúmlega 30 í 150 á tímabilinu og mest hefur aukningin verið hér á landi, en nú starfa um 130 manns hjá félaginu í höfuðstöðvum Sidekick á Íslandi. Til marks um aukin umsvif félagsins þrefaldaðist veltan í fyrra miðað við árið 2020 en þá nam veltan um 250 milljónum króna.

Sidekick er vel í stakk búið til að leiða framþróun heilbrigðistækni á heimsvísu

Samhliða fjármögnuninni mun Birgir Már Ragnarsson, stofnandi og eigandi Novator Ventures, taka sæti í stjórn Sidekick. Birgir hefur víðtæka reynslu af því að vinna náið með stofnendum að því að byggja upp fyrirtæki í hröðum vexti. Hann leiðir fjárfestingar Novator Ventures og situr í stjórn fjölda vaxtarfyrirtækja, þar á meðal Monzo Bank, Bloom & Wild, Cazoo, Zwift, Rebag, Applovin, Klang Games, Nord Security, Numan, Lockwood, Touchlight og Tier mobility. Birgir er auk þess stofnandi og stjórnarformaður hugmyndahússins Grósku.

„Landslagið í heilbrigðisgeiranum hefur breyst hratt í kjölfar COVID-19 faraldursins og Sidekick er vel í stakk búið til að leiða framþróun heilbrigðistækni á heimsvísu,“ segir Birgir.

Sidekick Health var stofnað af tveimur læknum, þeim Tryggva Þorgeirssyni og Sæmundi Oddssyni, í þeim tilgangi að fyrirbyggja og meðhöndla langvinna sjúkdóma. Þeir töldu hefðbundna nálgun ófullnægjandi til að sporna gegn mikilli aukningu í algengi og afleiðingum langvinnra sjúkdóma sem í dag valda 86 prósentum dauðsfalla og 70-80prósentum heilbrigðiskostnaðar á Vesturlöndum.

„Nýja fjármögnunin gerir okkur kleift að byggja ofan á þann trausta grunn sem við höfum nú þegar lagt, breikka úrval þeirra meðferða sem við erum með í þróun og halda áfram að fá til liðs við okkur afburðafólk,“ segir Tryggvi.

Frumtak Ventures tók einnig þátt fjármögnuninni í gegnum Frumtak III, 7 milljarða sjóð sem var komið á fót á síðasta ári, en Svana Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri og einn af eigendum Frumtaks Venturs, segir að fjárfestingin staðfesti trú sjóðsins á að Sidekick hafi það sem þarf til að verða leiðandi á alþjóðavísu í stafrænum heilsutæknilausnum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×