Innherji

Hagar hafa mun meiri á­hyggjur af verð­hækkunum en vöru­skorti

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Finnur Oddsson tók við sem forstjóri Haga í maí 2020.
Finnur Oddsson tók við sem forstjóri Haga í maí 2020.

Finnur Oddsson, forstjóri Haga, segist ekki hafa áhyggjur af því að skortur verði á ákveðnum vörutegundum hér á landi vegna hnökra í aðfangakeðjum. Helsta áhyggjuefni smásölufélagsins eru áhrif verðbólgu og vaxtahækkana á ráðstöfunartekjur heimila. Þetta kom fram í máli Finns á uppgjörskynningu Haga í morgun.

„Við héldum að það væri ljós við enda ganganna að loknu kóvid en átökin í Úkraínu hafa gert illt verra,“ sagði Finnur sem benti á að matarverðsvísitala FAO, matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna, hefði hækkað um tæplega 20 prósent á þremur mánuðum. 

Stjórnendur Haga hafa verið þeirrar skoðunar, að sögn Finns, að innlendar verðbólguspár hafi að undanförnu verið heldur bjartsýnar hvað varðar framlag matvælaverðs til verðbólguþróunar. Verðbólga mældist 7,2 prósent í apríl og hækkaði verð á mat og drykkjarvörum um 1,4 prósent milli mánaða.

„Sú þjónustan sem við veitum viðskiptavinum snýst fyrst og fremst um að útvega nauðsynjar á eins hagkvæman og skilvirkan hátt og kostur er á. Það er þess vegna sem við erum frekar bjartsýn. Í þeim aðstæðum sem eru uppi núna verður sífellt aukin eftirspurn eftir hagkvæmni í verslun og hagkvæmustu matarkörfunni sérstaklega. Við teljum okkur standa nokkuð vel að vígi þar,“ sagði Finnur.

„Óvissan sem við höfum helst áhyggjur af þegar kemur að okkar rekstri er hver staðan verður með ráðstöfunartekjur heimila í hækkandi verðlagi og hækkandi vaxtastigi. En ég ítreka að í svoleiðis aðstæðum verður aukin eftirspurn eftir hagkvæmasta kostinum og hann höfum við í Bónus.“

Við höfum fyrst og fremst áhyggjur af því að verðhækkanir verði bara þannig að sölu á sumum vörum verði sjálfhætt

Finnur sagði að smásölukeðjan hefði ekki val um annað en að hækka smásöluverð í ljósi aðstæðna. „Ef við myndum ekki bregðast við yrðum við fljótt komin í þá stöðu að vera á skjön við lög, við megum ekki selja vörur undir kostnaðarverði og verðhækkanirnar eru bara það miklar að framlegðin hefur ekki undan,“ sagði Finnur.

Aðspurður sagðist hann ekki sjá fram á verulegan skort á tilteknum vöruflokkum. „Við höfum ekki lent í teljandi vandræðum með að tryggja vöruframboð eða öryggiframboðs. Við höfum fyrst og fremst áhyggjur af því að verðhækkanir verði bara þannig að sölu á sumum vörum verði sjálfhætt.“

Hlutabréfaverð Haga hefur lækkað um ríflega 4 prósent það sem af er degi en smásölufélagið birti ársuppgjör eftir lokun markaða í gær. 

Vörusala Haga á síðasta fjórðungi, sem náði frá desember til loka febrúar, nam 35,3 milljörðum króna og jókst um ríflega 15 prósent frá fyrra rekstrarári. EBITDA nam 2.442 milljónum króna og hagnaður var 724 milljónum, sem var nokkuð umfram áætlanir stjórnenda.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×