Innherji

Opinberir starfsmenn leiddu launahækkanir í fyrra

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Óvenju mikið bil myndaðist á milli launaþróunar á opinbera og almenna markaðnum í upphafi síðasta árs.
Óvenju mikið bil myndaðist á milli launaþróunar á opinbera og almenna markaðnum í upphafi síðasta árs. Vísir/Vilhelm

Laun opinberra starfsmanna hafa hækkað mun meira en laun á almennum vinnumarkaði á síðustu árum og er það einkum launaþróunin á síðasta ári sem skýrir þennan mun.

Í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans er bent á að milli janúarmánaða 2021 og 2022 hafi laun á almenna markaðinum hækkað um 6,9 prósent en á sama tímabili hækkuðu laun hjá hinu opinbera um 8 prósent. Þar af hækkuðu laun hjá ríkinu um 8,2 prósent en hækkunin hjá sveitarfélögum nam 7,7 prósentum.

„Óvenju mikið bil myndaðist á milli launaþróunar á opinbera og almenna markaðnum í upphafi síðasta árs og virðist það ekki fara minnkandi,“ segir í Hagsjá. Í janúar 2021 hækkuðu laun á almenna markaðnum um 2,9 prósent en um 5,6 prósent hjá hinu opinbera.

Ef litið er aftur til janúar 2015 hafa laun opinberra starfsmanna hækkað um 74 prósent en á sama tíma hafa laun á almennum vinnumarkaði hækkað um 65 prósent.

Launaskriðið hjá hinu opinbera birtist meðal annars í ársreikningi Reykjavíkurborgar fyrir árið 2021 en hann sýndi að launahlutfallið í A-hluta borgarinnar er komið upp í 60 prósent. Launahlutfallið hefur hækkað samfellt frá árinu 2016 þegar það nam 51 prósenti.

Laun og launatengd gjöld í A-hluta borgarinnar, sem er að öllu leyti fjármagnaður með skatttekjum, námu tæplega 86 milljörðum króna á síðasta ári og hækkuðu um 12,5 prósent milli ára. Á sama tímabili jukust rekstrartekjur borgarinnar um 10,5 prósent, og þar af skatttekjur um 7,5 prósent.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×