Innherji

Ný stefna minnkar pólitík í stjórnum borgarfyrirtækja

Ný eigandastefna Reykjavíkurborgar, sem er afrakstur þverpólitískrar vinnu og verður að öllum líkindum samþykkt fyrir næsta kjörtímabil, hefur þær breytingar í för með sér að stjórnir fyrirtækja sem borgin á eignarhlut í verða ekki alfarið pólitískt skipaðar heldur blanda af óháðum og pólítískum fulltrúum.

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Borgin mun koma á fót tilnefningarnefnd með svipuðum hætti og flest skráð fyrirtæki í Kauphöllinni.  VÍSIR/VILHELM

Ný eigandastefna Reykjavíkurborgar, sem er afrakstur þverpólitískrar vinnu og verður að öllum líkindum samþykkt fyrir næsta kjörtímabil, hefur þær breytingar í för með sér að stjórnir fyrirtækja sem borgin á eignarhlut í verða ekki alfarið pólitískt skipaðar heldur blanda af óháðum og pólítískum fulltrúum.

„Grundvallaratriðið hér er að minnka pólitík í stjórnum fyrirtækjanna og innleiða meiri fagmennsku,“ segir Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs.

Á árinu 2019 var settur á laggirnar stýrihópur sem hafði það hlutverk að móta almenna eigandastefnu Reykjavíkurborgar gagnvart fyrirtækjum sem eru að hluta eða öllu leyti í eigu borgarinnar. Markmiðið, samkvæmt drögunum sem liggja fyrir, var meðal annars að „tryggja gagnsæja, faglega og skilvirka stjórnun“ fyrirtækjanna. Hingað til hefur Reykjavíkurborg ekki haft heildstæða eigandastefnu heldur einungis stefnu fyrir tiltekin fyrirtæki.

Við ætlumst ekki til þess að allir séu lögfræðingar eða viðskiptafræðingar heldur að stjórnin sé fjölbreytt þannig að allir komi með eitthvað að borðinu

Eigandastefnan, sem tekur mið af leiðbeiningum OECD um stjórnarhætti fyrirtækja í opinberri eigu frá árinu 2015, gerir ráð fyrir því að við tilnefningar í stjórnir einkaréttarlegra fyrirtækja skuli miðað við að meirihluti stjórnarmanna verði óháður fyrirtækinu og stjórnendum þess.

Jafnframt er gert ráð fyrir að hluti stjórnarmanna verði óháður Reykjavíkurborg, þ.e. hvorki kjörnir fulltrúar né starfsmenn borgarinnar. Í 5 manna stjórn skal því miða við að minnst tveir af stjórnarmenn séu óháðir Reykjavíkurborg og að minnst 3 verði óháðir í 7 manna stjórn.

Á þessu kjörtímabili hafa fulltrúar meirihlutans í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur verið óháðir Reykjavíkurborg en það eru Brynhildur Davíðsdóttir, sem er formaður, Gylfi Magnússon, sem er varaformaður og Vala Valtýsdóttir. Tveir fulltrúar minnihlutans, Hildur Björnsdóttir og Eyþór Laxdal Arnalds, eru hins vegar kjörnir fulltrúar.

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs.VÍSIR/VILHELM

Ný eigandastefna hefur því ekki mikil áhrif á skipun stjórnar í Orkuveitu Reykjavíkur – minnihlutinn og meirihlutinn munu þó koma sér saman um þrjá óháða stjórnarmenn – en stefnan felur í sér töluverða breytingu fyrir t.d. Faxaflóahafnir þar sem allir núverandi stjórnarmenn eru kjörnir fulltrúar.

Verði eigandastefnan samþykkt mun borgarráð tilnefna fjóra borgarráðsfulltrúa sem, ásamt hinu svokallaða eigandafyrirsvari, mynda tilnefningarnefnd. Borgarstjóri er handhafi eigandafyrirsvars en framkvæmd og eftirfylgni stefnunnar er í höndum borgarritara

Í vinnu tilnefningarnefndar skal litið til þess að stjórn, nefnd eða ráð sé hverju sinni samsett af einstaklingum sem hafa breiða þekkingu og bakgrunn. Þannig er gert ráð fyrir að í stjórnum einkaréttarlera fyrirtækja sé til staðar þekking á rekstri fyrirtækisins, stjórnarháttum, stefnumótun, fjármálum, mannauðsmálum og samfélagslegri ábyrgð.

„Tilnefningarnefndinni er ætlað að finna óháða stjórnarmenn og jafnframt gæta þess að pólitískir fulltrúar uppfylli kröfur um þekkingu og reynslu. Við ætlumst ekki til þess að allir séu lögfræðingar eða viðskiptafræðingar heldur að stjórnin sé fjölbreytt þannig að allir komi með eitthvað að borðinu,“ segir Þórdís Lóa.

Staðreyndin er sú að við erum langt á eftir nágrannaþjóðum okkar í þessum efnum og þetta er gott fyrsta skref í rétta átt

Þá er stefnt að því að stjórnir séu skipaðar til 4 ára og hluti stjórnar skipaður á 2 ára fresti þannig að unnt sé að tryggja samfellu tiltekinn varanleiki og þekking séu tryggð frá einum tíma til annars.

Spurð hvers vegna ekki hafi verið gengið lengra í því að tryggja að stjórnir verði óháðar Reykjavíkurborg segir Þórdís Lóa að það hafi verið rætt en ekki hafi náðst samstaða um að ganga lengra.

„Staðreyndin er sú að við erum langt á eftir nágrannaþjóðum okkar í þessum efnum og þetta er gott fyrsta skref í rétta átt.“

Nýja eigandastefnan er sem stendur í umsagnarferli og verður hún lögð fyrir borgarráð um mánaðamótin. Þórdís bindur vonir við að stefnan taki gildi í kringum næstu kosningar. Að hennar sögn er um að ræða þverpólitíska vinnu og hafa stefnudrögin ekki mætt andstöðu enn sem komið er.

Fyrirtæki sem falla undir stefnuna eru meðal annars Aflvaki hf., Faxaflóahafnir sf., Félagsbústaðir hf., Íþrótta- og sýningahöllin hf., Malbikunarstöðin Höfði hf., Orkuveita Reykjavíkur, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins bs., Sorpa bs. og Strætó bs.

Helga Hlín Hákonardóttir, meðeigandi hjá ráðgjafafyrirtækinu Strategíu, sagði í nýlegu viðtali við Innherja að tilnefningar í stjórnir fyrirtækja í eigu íslenska ríkisins, að fjármálafyrirtækjum undanskildum, uppfylltu ekki alþjóðleg viðmið um góða stjórnarhætti. Ísland sker sig úr hópi OECD-ríkja að þessu leyti.

„Það segir sig sjálft að forsendurnar fyrir tilnefningu, þ.e að viðkomandi sé skráður í stjórnmálaflokk eða hljóti náð fyrir augum þess þingflokks sem fjármálaráðherra gefur færi á að tilnefna í viðkomandi stjórnir, standast ekki viðurkennd alþjóðleg viðmið um vandaða stjórnarhætti opinberra aðila,“ sagði hún.

Helga Hlín benti á að enn skorti lýsingu á faglegu ferli við tilnefningu einstaklinga til stjórna ríkisfyrirtækja, svo sem Landsvirkjunar, Isavia og Íslandspósts. Tilnefningarferlið væri því hvorki í samræmi við fyrrnefndar leiðbeiningar OECD um stjórnarhætti opinberra fyrirtækja né almennt viðurkenndar venjur um góða stjórnarhætti.


Tengdar fréttir

Sonur Ingu Sælands hreppir sæti í stjórn Íslandspósts

Það varð meiri háttar uppstokkun á stjórn Íslandspósts fyrir helgi þegar nánast öllum stjórnarmönnum ríkisfyrirtækisins var skipt út. Auður Björk Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri fjártæknifélagsins Two Birds, situr áfram í stjórn en Halldóra Lóa Þorvaldsdóttir, Gísli Sigurjón Brynjólfsson, Guðný Hrund Karlsdóttir og Baldvin Örn Ólason koma í stað þeirra sem skipt var út.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×