Klinkið

Lilja Dögg ráðin framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar Takanawa

Ritstjórn Innherja skrifar
Lilja Dögg Jónsdóttir kemur til Takanawa frá forsætisráðuneytinu þar sem hún hefur starfað á skrifstofu stefnumála.
Lilja Dögg Jónsdóttir kemur til Takanawa frá forsætisráðuneytinu þar sem hún hefur starfað á skrifstofu stefnumála.

Lilja Dögg Jónsdóttir, sem hefur undanfarið starfað á skrifstofu stefnumála í forsætisráðuneytinu, hefur verið ráðin framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar Takanawa.

Í störfum sínum forsætisráðuneytinu hefur Lilja Dögg meðal annars leitt stefnumótun á sviði gervigreindar og tæknimála, auk þess að sinna ýmsum verkefnum tengdum nýsköpun og efnahagsmálum.

Lilja Dögg hefur víðtæka reynslu úr alþjóðlegum heimi tækni og viðskipta. Hún bjó í Boston í Bandaríkjunum í um áratug þar sem hún lauk MBA prófi frá Harvard háskóla og starfaði í kjölfarið hjá sprotahraðlinum og fjárfestingasjóðnum Redstar Ventures og síðar sem framkvæmdastjóri hjá bandaríska hugbúnaðar- og gagnafyrirtækinu Burning Glass Technologies.

„Það er virkilega spennandi að fá tækifæri til að taka dýrmæta reynslu síðustu ára, fyrst úr heimi nýsköpunar í Bandaríkjunum og svo í framsæknum stefnumótunarverkefnum forsætisráðuneytisins, og nýta hana í þýðingarmikil verkefni og uppbyggingu vaxandi fyrirtækis,“ segir Lilja Dögg við Innherja.

Lilja Dögg er hagfræðingur að mennt frá Háskóla Íslands og var á námsárum sínum formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands.

Takanawa var stofnað í Tókýó árið 2010 af Bolla Thoroddsen, núverandi forstjóra félagsins, í kringum viðskiptaþróun, kaup og samruna fyrirtækja í lyfja- og líftæknigeiranum. Undanfarin ár hefur fyrirtækið og starfsvið þess vaxið og nær nú einnig til verkefna sem tengjast endurnýjanlegri orku, fjarskiptum, upplýsingatækni, matvælum og ýmsum alþjóðlegum fjárfestingatækifærum. Ráðning Lilju Daggar er liður í að styðja þessa vegferð og frekari vöxt fyrirtækisins.

Aðalskrifstofa Takanawa er í Tókýó og skrifstofa fyrirtækisins á Íslandi er í Austurstræti 12, Reykjavík.


Klinkið er vettvangur Innherja þar sem dregin er upp mynd og veitt innsýn í bakherbergi viðskipta, stjórnmála og atvinnulífs á landinu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.