Innherji

Arion spáir 5,5 prósenta hagvexti og tæpri 18 prósenta hækkun íbúðaverðs

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Þrátt fyrir góðar horfur hefur fjárfestingaumhverfið versnað
Þrátt fyrir góðar horfur hefur fjárfestingaumhverfið versnað VÍSIR/VILHELM

Ný þjóðhagsspá Arion banka gerir ráð fyrir 5,5 prósenta hagvexti árið 2022 sem er nokkuð minni hagvöxtur en gert var ráð fyrir í síðustu spá. Kraftmikil innlend eftirspurn kallar á umtalsverðan innflutning og því verður framlag utanríkisverslunar ekki jafn hagfellt og áður var spáð.

Á fjórða fjórðungi síðasta árs jókst einkaneyslan um 13 prósent, sem er mesti vöxtur á einstaka fjórðungi frá árinu 2005. Aðstæður á vinnumarkaði eru til þess fallnar, að því er kemur fram í spánni, að styðja við áframhaldandi einkaneysluvöxt.

Peningalegt aðhald hefur aukist til muna – og mun herðast enn frekar – á sama tíma og ríkissjóður þarf að fjármagna verulegan ríkisfjármálahalla.

„Spá Arion banka gerir ráð fyrir 4,4 prósenta einkaneysluvexti í ár, enda laun að hækka, sparnaður hefur safnast upp og eiginfjárstaða heimila stórbatnað. Búist er við enn meiri einkaneysluvexti á næsta ári eftir því sem verðbólga hjaðnar og kaupmáttur eykst.“

Þrátt fyrir að hagvaxtarspáin fyrir árið 2022 hafi verið tekin niður um eitt prósentustig, úr 6,5 prósentum hagvexti í 5,5 prósent, er hagspá Arion banka engu að síður sú bjartsýnasta. Aðrar nýlegar spár hafa gert ráð fyrir 4,5 til 4,8 prósenta hagvexti á árinu.

„Verður að segjast eins og er að áhættan er mun meiri niður á við, það er að segja að það er líklegra að hagvöxtur sé ofmetinn en vanmetinn,“ segir jafnframt í þjóðhagsspá Arion banka.

Gert er ráð fyrir að tæplega 1,6 milljónir ferðamanna komi til landsins í ár, sem er svipuð niðurstaða og í síðustu hagspá. Stríðið í Úkraínu hefur þar af leiðandi óveruleg áhrif á ferðamannaspána en aftur er bent á að áhættan sé niður á við.

Atvinnuvegafjárfesting jókst um 20 prósent á síðasta ári og er gert ráð fyrir áframhaldandi vexti. En þrátt fyrir góðar horfur hefur fjárfestingaumhverfið versnað. „Peningalegt aðhald hefur aukist til muna – og mun herðast enn frekar – á sama tíma og ríkissjóður þarf að fjármagna verulegan ríkisfjármálahalla. Samkeppni um dýrara lánsfé gæti dregið úr fjárfestingarvilja atvinnulífsins.“

Í hagspánni er reiknað með að hægja muni verulega á húsnæðisverðhækkunum strax um mitt ár. Húsnæðisverð mun þannig hækka um alls 17,7 prósent á árinu 2022, 6,4 prósent á næsta ári og 3,7 prósent árið 2024.

Erna Björg Sverrisdóttir, aðalhagfræðingur Arion banka og höfundar hagspárinnar, bendir á að þótt jákvæð teikn séu á lofti um framboð á húsnæðismarkaði taki byggingarferlið tíma, jafnvel allt upp í tvö ár. Á sama tíma er eftirspurnarhliðin sterk.

„Þótt óverðtryggðir vextir hafi hækkað skarpt hafa verðtryggðir vextir lækkað og því leikur einn fyrir heimilin að skipta um lánaform og lækka greiðslubyrðina sé hún orðin íþyngjandi,“ segir í hagspánni.

Á einhverjum tímapunkti segja kaupendur stopp, líkt og árið 2017.

„Greiðslubyrðarhlutfall og vaxtahækkanir eru þar af leiðandi ekki ennþá orðnir hamlandi þættir fyrir húsnæðisverð. Engu að síður er gert ráð fyrir því að hægja muni verulega á húsnæðisverðshækkunum strax um mitt ár þar sem íbúðaverð hefur að undanförnu hækkað langt umfram undirliggjandi þætti. Á einhverjum tímapunkti segja kaupendur stopp, líkt og árið 2017.

Spá Arion banka gerir ráð fyrir að verðbólga náði hámarki á þriðja fjórðungi þessa árs, fari tímabundið yfir 7 prósent, en hjaðni hratt á næsta ári samhliða sterkari gengi krónunnar og fallandi framlagi húsnæðisverðs. Horfur eru á að meginvextir Seðlabanka Íslands fari hæst í 4,5 prósent áður en þeir lækka á nýjan leik.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×