Viðskipti innlent

Auglýsing á „krísu-útrýmingarsölu“ ekki lögmæt

Bjarki Sigurðsson skrifar
Alan Talib er eigandi Cromwell Rugs ehf..
Alan Talib er eigandi Cromwell Rugs ehf.. Aðsend

Neytendastofa hefur sektað fyrirtækið Cromwell Rugs ehf. um eina milljón króna fyrir brot á neytendalögum. Félagið var einnig sektað af Neytendastofu í október síðastliðnum, þá um þrjár milljónir króna.

Í ákvörðun Neytendastofu segir að stofnuninni hafi borist ábendingar vegna auglýsinga sem Cromwell Rugs birti ítrekað í Fréttablaðinu og Morgunblaðinu. Félagið auglýsti þar handofin persnesk teppi og hélt því fram að um væri að ræða „krísu-útrýmingarsölu“.

Í auglýsingu í Morgunblaðinu þann 21. desember kom ekki fram hvert verðið á teppunum væri, einungis að það væri á enn meiri afslætti en það var áður. Stórt X var yfir upprunalega verðinu og gamla afsláttarverðinu. Þá sagði einnig að vöruhúsið væri einungis opið næstu þrjá daga.

Neytendastofa gerði athugasemd við þessar fullyrðingar ásamt því að óska eftir sönnun á upprunalegu verði teppanna.

Auglýsingin sem birtist í Morgunblaðinu þann 21. desember síðastliðinn. Morgunblaðið

Töldu auglýsingar ekki varða reglugerðina

Í 17. grein laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins er kveðið á um að fyrirtæki sem selji vörur og þjónustu til neytenda skuli merkja vöru sína og þjónustu með verði eða sýna það á svo áberandi hátt á sölustaðnum að auðvelt sé fyrir neytendur að sjá það. Cromwell Rugs túlkaði ákvæðið sem svo að það gilti ekki um auglýsingar.

Í svari Cromwell til Neytendastofu er því haldið fram að fullyrðingin um þriggja daga opnun væri sönn þrátt fyrir að vöruhúsið hafi opnað að nýju. Til stóð að færa teppin til Akureyrar og opna verslun þar en ekki náðust samningar við staðarblöð um auglýsingar og því hafi verið hætt við opnunina. Þá var ákveðið opna verslunina aftur í Reykjavík. 

Fullyrðingin hafi því verið byggð á bestu mögulegu upplýsingum á þeim tíma.

Fengu fólk til að taka skyndiákvörðun

Samkvæmt niðurstöðum Neytendastofu braut Cromwell Rugs lög með því að birta ekki endanlegt verð teppanna og einnig með því að halda því ranglega fram að félagið væri um það bil að hætta verslun. Með því hafi fyrirtækið blekkt neytendur til að taka skyndiákvörðun um kaupin.

Cromwell Rugs er því gert að greiða stjórnvaldssekt að einni milljón króna vegna brotsins. Þá er fyrirtækinu einnig bannað að viðhafa viðskiptahættina sem eru tilgreindir í ákvörðuninni.

Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér.


Tengdar fréttir

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.