Innherji

Ljósleiðarinn segir fjárfestum að langur afskriftartími eigi fullan rétt á sér

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Ljósleiðarinn segir að líftími strengja sé metinn 30 ár en endingartími röra sé talinn vera að minnsta kosti 50 ár.
Ljósleiðarinn segir að líftími strengja sé metinn 30 ár en endingartími röra sé talinn vera að minnsta kosti 50 ár. Mynd/Ljósleiðarinn

Ljósleiðarinn, dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur, telur ekkert óeðlilegt við það að ljósleiðarakerfi fyrirtækisins sé afskrifað á 46 árum sem er nokkuð lengri afskriftartími en gengur og gerist hjá sambærilegum innviðafyrirtækjum. Í fjárfestakynningu fyrir skuldabréfaútboð bendir Ljósleiðarinn meðal annars á að rörakerfið, sem er stærsti kostnaðarliðurinn við lagningu ljósleiðara, geti nýst í meira en 50 ár.

Innherji greindi í síðustu viku frá stjórnsýslukæru Símans þar sem fjarskiptafélagið hélt því fram að stöðugar breytingar á afskriftartíma í bókhaldi Ljósleiðarans bæru merki um tilraunir til að „fegra“ rekstrarniðurstöðuna.

Ef endingartími eignar er ranglega metinn leiðir það til þess að afskriftir sem færðar er til gjalda í rekstrarreikningi verði ýmist vanáætlaðar eða ofáætlaðar, og gefi þar með ranga mynd af rekstrarniðurstöðu fyrirtækisins.

Árið 2008 var afskriftartími dreifikerfis Ljósleiðarans 7 til 25 ár en síðan þá hefur hann verið lengdur í nokkrum skrefum og er nú 9 til 46 ár. Síminn sagði að almennt þekktist ekki sá langi afskriftartími sem Ljósleiðarinn miðar við og vísaði til þess að Tengir á Akureyri, Telenor í Noregi og TDC Net í Danmörku afskrifi sín kerfi á 30 árum.

„Síminn telur augljóst að Fjarskiptastofa eigi að rannsaka hvort verið sé að framlengja afskriftartíma með ómálefnalegum hætti til þess að draga úr neikvæðri afkomu Ljósleiðarans,“ sagði fjarskiptafélagið sem benti jafnframt á að Ljósleiðarinn hefði skilað neikvæðu sjóðstreymi á hverju ári frá stofnun.

Ljósleiðarinn stóð fyrir útboði á grænum skuldabréfum í gær þar sem stefnt var að því að sækja 4 milljarða króna. Í kynningu sem var send á fjárfesta fyrir útboðið og Innherji hefur undir höndum var vikið sérstaklega að afskriftartíma ljósleiðarakerfisins.

Fastafjármunir Ljósleiðarans skiptast í netkerfi og endabúnað, sem afskrifast á 9 árum, ljósleiðaralagnir, sem afskrifast á 30 árum, og loks ljósleiðarakerfi, þ.e.a.s. ídráttarrör og strengir, sem afskrifast að meðaltali á 46 árum.

Ljósleiðarkerfið, sem nær til um 110 þúsunda heimila, er í grunninn tvö aðskilin kerfi; annars vegar rörakerfi og hins vegar strengjakerfi. Rörakerfið eru íhlutir úr plasti en strengjakerfið samanstendur af ljósleiðarastrengjum.

„Meginástæða þess að setja ljósleiðarastrengi inn í rörakerfi er sá möguleiki að endurnýja má strengina án þess að endurnýja rörakerfið [með jarðvinnufjárfestingum],“ segir í fjárfestakynningunni.

Ljósleiðarinn segir að líftími strengja sé metinn 30 ár en endingartími röra sé talinn vera að minnsta kosti 50 ár. „Samkvæmt kostnaðargreiningum fjárfestinga er stærsti kostnaðurinn við lagningu ljósleiðara fólginn í efni og vinnu við rörakerfi. Það er því mat Ljósleiðarans að ljósleiðarakerfisins sé yfir 46 ár.“

Þá bendir fyrirtækið á að NATO-strengurinn, sem nær hringinn í kringum landið en liggur þó ekki í röri, hafi verið lagður 36 árum og sé enn í fullri notkun.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×