Innherji

Katrín segir lífskjör ráðast af fleiru en launum, Ásgeir varar við „hringavitleysu“

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra. VÍSIR/VILHELM

Komandi kjaraviðræður voru á meðal þess sem Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri fjölluðu um á ársfundi Seðlabanka Íslands sem var haldinn fyrr í dag. Forsætisráðherra lagði áherslu á að lífskjör réðust af fleiri þáttum en fjárhæðinni sem er gefin upp á launaseðlinum og seðlabankastjóri varaði við þeirri „hringavitleysu“ mæta stýrivaxtahækkunum með auknum launakröfum.

Seðlabanki Íslands var fyrstur vestrænna seðlabanka til þess að hækka vexti í maí á síðasta ári eftir miklar lækkanir í upphafi faraldursins. Nú standa stýrivextir bankans í 2,75 prósentum og hafa því hækkað um 2 prósentur á síðustu 12 mánuðum. Bankinn á fullt í fangi með verðbólguna sem mældist 6,7 prósent í febrúar.

Ásgeir sagði að þrátt fyrir allt það umboð sem Seðlabankanum hefur verið fengið gæti hann ekki tryggt stöðugleika nema vinnumarkaðurinn gengi í takt.

„Annars er hætta á að við siglum inn í gömlu hringavitleysuna með víxlhækkunum launa og verðlags til tjóns fyrir alla. Enn verra væri að hringavitleysan endurspeglaðist í kröfum um að stýrivaxtahækkunum verði að mæta með launahækkunum,“ sagði Ásgeir.

„Spurningunni um hve mikið Seðlabankinn kunni að þurfa að hækka vexti til þess að viðhalda stöðugleika verður aðeins svarað í komandi heildarkjarasamningum í haust,“ sagði Ásgeir í ræðu sinni á fundinum.

Í ávarpi Katrínar sagði hún flesta sammála um að kaupmáttur hverrar krónu sem kemur inn á launareikninginn væri það sem skiptir máli.

„Lífskjörin ráðast hins vegar ekki aðeins af þeirri fjárhæð sem gefin er upp á launaseðli heldur svo ótal mörgum öðrum þáttum sem varða til að mynda uppbyggingu skattkerfis, stuðnings- og afkomutryggingakerfa, húsnæðismarkaðar og almannaþjónustu og hvernig þessir þættir spila saman,“ sagði Katrín. 

Spurningunni um hve mikið Seðlabankinn kunni að þurfa að hækka vexti til þess að viðhalda stöðugleika verður aðeins svarað í komandi heildarkjarasamningum í haust

„Markmiðið er líkt og áður að styðja við samtalið og leita sameiginlegra lausna sem skila okkur aukinni velsæld og bættu samfélagi.“

Þá benti hún á að niðurstöður lífskjarakönnunar sem Hagstofan birti um miðjan mars sýndu almennt jákvæða þróun á síðastliðnu ári. Hlutfall heimila sem átti erfitt með ná endum saman árið 2021 hafi, þrátt fyrir áhrif farsóttar, verið hið lægsta sem mælst hefur í þessari könnun eða 24 prósent. Hlutfallið var yfir 40 prósent á árunum 2010 - 2015.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×