Innherji

Breyttir tímar hjá byggingarvörurisa

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Tinna Ólafsdóttir er framkvæmdastjóri verslunarsviðs hjá Húsasmiðjunni þar sem miklar breytingar eru að eiga sér stað um þessar mundir.
Tinna Ólafsdóttir er framkvæmdastjóri verslunarsviðs hjá Húsasmiðjunni þar sem miklar breytingar eru að eiga sér stað um þessar mundir. Axel Þórhallsson

Húsasmiðjan opnaði nýja verslun og þjónustumiðstöð við Freyjunes á Akureyri nýverið, en lokaði verslunum sínum á Dalvík og á Húsavík.

Tinna Ólafsdóttir hóf störf hjá Húsasmiðjunni sem framkvæmdastjóri verslanasviðs fyrir einu og hálfu ári. Miklar og stórar breytingar eru að eiga sér stað á sviði verslunar og þjónustu hjá fyrirtækinu líkt og víðar í íslensku atvinnulífi. Breytt samfélag og yngri kynslóðir kalla eftir aukinni rafrænni þjónustu og fyrirtækið hefur reynt að svara kallinu. Fyrir vikið hurfu á braut smærri verslanir á Norðurlandi, sem heimamenn sjá vitaskuld mjög á eftir.

„Landamæri milli verslana og hins stafræna verslunar- og þjónustuheims eru að hverfa hratt og við sjáum það skýrt að viðskiptavinir okkar vilja eiga samskipti við okkur í gegnum ólíka miðla á sama tíma og þeir vilja upplifa sömu þjónustu, vöruframboð, vöruupplýsingar og afgreiðsluleiðir óháð því hvar og hvernig viðskiptin eiga sér stað. Þetta er spennandi vegferð og til að halda viðskiptavinum ánægðum þarf allt að haldast í hendur, óskir viðskiptavina um samskiptaleiðir og tæknigeta okkar. Þar tel ég okkur hjá Húsasmiðjunni standa mjög vel að vígi,“ segir Tinna.

Við vitum að viðskiptavinurinn vill hafa byggingavöruverslun í nærumhverfi sínu og þjónustum við honum því í öllum landsfjórðungum. Í minni sveitarfélögum reynast rekstrarforsendur þó því miður oft erfiðar þar sem starfsmannakostnaður og birgðahald er hlutfallslega hátt miðað við fjölda viðskiptavina"

Hjá Húsasmiðjunni, Blómaval og Ískraft starfa rúmlega 500 manns með fjölbreyttan bakgrunn, reynslu og þekkingu. Starfssemi Húsasmiðjunnar þjónar bæði stærri og smærri bæjarfélögum um land allt en nú loka tvö rótgróin Húsasmiðju útibú norður í landi en stór og endurbætt verslun opnar á Akureyri á sama tíma.

Húsasmiðjan rekur fjórtán verslanir og Blómavalsverslanir eru í sjö þeirra. Þar að auki eru fjögur útibú frá Ískraft. 

„Við vitum að viðskiptavinurinn vill hafa byggingavöruverslun í nærumhverfi sínu og þjónustum við honum því í öllum landsfjórðungum. Í minni sveitarfélögum reynast rekstrarforsendur þó því miður oft erfiðar þar sem starfsmannakostnaður og birgðahald er hlutfallslega hátt miðað við fjölda viðskiptavina samhliða kröfum um vöruúrval og þjónustustig. Því tókum við þá ákvörðun að loka verslunum okkar á Húsavík og Dalvík samhliða opnun á þessari þjónustumiðstöð Norðurlands. Á sama tíma opnuðum við líka söluskrifstofu á Húsavík sem sinnir einkum verktökum og einstaklingum í framkvæmdum,” segir hún.

Stendur ekki til að loka fleiri verslunum

Aðspurð um hvort heimamönnum sé ekki brugðið að verslunarrisinn sé að loka dyrum sínum í smærri bæjarfélögum segir Tinna verslun almennt í stöðugri þróun. Í versluninni á Freyjunesi sé til að mynda stóraukið við þjónustu og vöruframboð til að mæta lokunum smærri verslananna í landshlutanum. 

„Húsasmiðjan á Freyjunesi er í raun þjónustumiðstöð fyrir allt Norðurland og þar verða verslanir Húsasmiðjunnar, Blómavals og Ískrafts undir einu þaki. Við höfum vandað sérlega til verka við undirbúning hennar og lögðum mikla áherslu á upplifun, þjónustu og mikið vöruúrval. Búðin er sérhönnuð út frá þörfum viðskiptavina okkar, auknum kröfum um upplýsingagjöf, stafræna tækni og sýningarsvæði,“ segir hún.

„Við erum í dag mjög ánægð með þá dekkun sem við erum með um landið allt. Það stendur ekki til að loka neinum verslunum.”

Verslunin er stór, um fimm þúsund fermetrar. „Búðin er með öfluga málningadeild, veglegt sýningarými fyrir heimilistæki, gólfefni og hreinlætistæki, sýningarveggi fyrir þungavöruna og enn stærri Blómavalsverslun. Jafnframt er timbursalan mun stærri en hún var áður og með „drive-through".

Tinna Ólafsdóttir og Kristín Dögg Jónsdóttir rekstrarstjóri Húsasmiðjunnar á Norðurlandi.Axel Þórhallsson

„Við vorum með nokkuð skýra mynd af því hvernig við vildum hafa búðina og þjónustuna en til að hjálpa okkur fengum við breska ráðgjafa frá M Worldwide til að þróa verkefnið með okkur. Á næsta ári ætlum við síðan að opna nýja verslun á Selfossi og verður hún í sama anda og verslun okkar á Akureyri. Mjög spennandi verkefni því framundan á næsta ári.“

Verður þá smærri verslunum annars staðar lokað, samhliða opnuninni á Selfossi?

„Við erum í dag mjög ánægð með þá dekkun sem við erum með um landið allt. Það stendur ekki til að loka neinum verslunum.”

Stafræn verslun í miklum vexti

Tinna segir að unnið sé af fullum krafti að þeirri stafrænu vegferð og þjónustu sem fyrirtækið hefur verið á undanfarin misseri og að viðskiptavinir megi búast við nýjum þjónustuleiðum síðar á árinu. „Við erum að stórefla vefverslunina okkar með auknu vöruúrvali og vöruupplýsingum. Í dag erum við með yfir 30 þúsund vörunúmer til sölu í vefverslunum okkar og höfum til dæmis lagt áherslu á gott aðgengi viðskiptavina þar að umhverfisvænum vörum. Við sjáum að sívaxandi hópur viðskiptavina vill versla umhverfisvænar vörur sem er ánægjulegt. Við þurfum að svara því kalli.”

Tinna segir alla umhverfisvitund vera að aukast. „Við höfum í nokkur ár til að mynda mælt kolefnisspor starfseminnar í samstarfi við Klappir og höfum náð að lækka heildarlosun koltvísýringsgilda frá starfseminni um 16 prósent frá 2019. Við erum meðvituð um þá ábyrgð sem hvílir á okkur, bæði sem stórt fyrirtæki hér á landi með yfir fimm hundruð starfsmenn en ekki síður stór aðili í vali á því vöruframboði sem Íslendingum gefst kostur á að velja úr hér á landi, til bygginga og til heimilis, í samspili við náttúru okkar og jörðina.“

Á síðasta ári var Húsasmiðjuappið svo kynnt til leiks, sem er bæði sjálfsafgreiðsluapp og þjónustuapp sem sameinar sjálfsafgreiðslu í verslun og þær þjónustuleiðir sem Húsasmiðjan hefur verið að bjóða upp á rafrænt á síðustu misserum. „Má þar nefna greiðsludreifingu, að stýra lánsheimildum þar sem umsóknarferlið er að fullu rafrænt og að viðskiptavinir geti notað sín afsláttar- og viðskiptakjör og skráð kaup á verknúmer,“ útskýrir Tinna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×