Viðskipti innlent

Seðla­bankinn skoðar að gefa út ís­lenska raf­krónu

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Rannveig Sigurðardóttir er aðstoðarseðlabankastjóri peningastefnu.
Rannveig Sigurðardóttir er aðstoðarseðlabankastjóri peningastefnu. vísir/vilhelm

Ís­lensk raf­mynt gæti verið fram­tíðin í greiðslu­miðlun á Ís­landi. Seðla­bankinn hefur skipað vinnu­hóp til að skoða hvort til­efni sé til að bankinn gefi út slíka mynt til al­mennra nota. Hug­myndin er enn á frum­stigi.

Hópnum hefur verið falið að meta kosti og galla slíkrar ís­lenskrar raf­krónu.

Rann­veig Sigurðar­dóttir að­stoðar­seðla­banka­stjóri segir þróunina í heiminum vera í þessa átt:

„Meiri­hluti Seðla­banka ríkja í heiminum er að skoða þetta og flestir eru bara á sama stað og við að velta upp spurningunni hvort að út­gáfa Seðla­bankaraf­eyris sé nauð­syn­leg og leysi ein­hver vanda­mál sem eru þá innan landanna,“ segir Rann­veig.

Fæstir nota seðla í dag

Hún nefnir dæmi um kosti slíkrar myntar:

„Það er náttúru­lega bæði mikil ný­sköpun og tækni­breytingar í gangi sem er svona önnur hliðin á þessu. Hin hliðin er náttúru­lega minnkandi seðla­notkun,“ segir Rann­veig. Í dag nota ekki nema um fimm til tíu prósent landsmanna reiðufé reglulega.

Rannveig segir mikilvægt að rafkrónan myndi ekki veikja hina almennu viðskiptabanka.vísir/vilhelm

Seðla­bankanum er falið að standa vörð um virka og örugga greiðslu­miðlun og slík raf­mynt gæti einnig bætt greiðslu­miðlun milli landa.

Reglu­verk í kring um slíka mynt yrði þó væntan­lega ansi mikið svo fólk færi ekki megnið af fé sínu úr al­mennum við­skipta­bönkum og í Seðla­bankann. Rannveig segir Seðlabankann alls ekki vilja veikja viðskiptabankana. Það myndi ekki gagnast neinum.

Gæti orðið hröð þróun

Enn er nokkuð í að slík mynt líti dagsins ljós - það er að segja ef bankinn metur það æski­legt yfir höfuð.

„Þetta er eitt­hvað sem að gerist lík­lega ekki alveg á næstunni en ég hef nú yfir­leitt haldið því svoldið til haga að hlutir geta líka gerst mjög hratt því það hafa verið til­raunir er­lendis bæði með tæknina og prófanir og annað,“ segir Rann­veig.

Nú fer hópurinn vand­lega yfir málið áður en sam­tal um ís­lenska raf­krónu fer fram við al­menning.

„Í kjöl­farið myndum við þá taka upp sam­talið við hag­hafa eins og aðila á fjár­mála­markaði, við al­menning og kjörna full­trúa og stjórn­völd,“ segir Rann­veig.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.