Umræðan

Íslenskir áhrifavaldar – hverjir voru hvar?

Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir skrifar

Þó að það viðurkenni það kannski ekki allir, þá finnst flestum forvitnilegt að skyggnast í líf áhrifavalda og velta því fyrir sér hverjir eru hvar. Þetta er ekki aðeins vinsælt efni á vefmiðlum, heldur ein helsta smellibeitan á samfélagsmiðlum. 

Það getur verið áhugavert að skoða að hverjum sviðsljósið beinist, en kannski ekki síður hvað fær enga athygli. Óhætt er til dæmis að segja að loðnuvertíðin fái litla sem enga athygli í heimi áhrifavalda. Þar fer lítið fyrir fólkinu sem ýmist sækir aflann, vinnur hann eða markaðssetur. Það ferst nefnilega alveg fyrir að beina kastljósinu að hinum raunverulegu áhrifavöldum, sem raunverulega geta haft áhrif á lífsgæði okkar til framtíðar. Þeir falla í skuggann á öllu hinu.

Jafnvel þó að loðnan haldi fá partý og myndist ekkert sérstaklega vel þá er hún áhrifavaldur í íslensku samfélagi. Við ættum öll að skilja mikilvægi hennar og áhrif.

Nýir áhrifavaldar eru skemmtileg viðbót við samfélagið okkar. Við fögnum nýjum starfsheitum, störfum og greinum í samfélagi sem þróast hratt. Eitt þarf ekki að útiloka annað. Við verðum að hvetja til umræðu og fræðslu um hina raunverulegu áhrifavalda. Þá sem hafa áhrif á daglegt líf okkar allra, gang þjóðfélagsins og velmegun þjóðarinnar. Hvar verða verðmætin til, hvernig tryggjum við lífsgæði okkar til framtíðar og hvaða áhrif getur fjarvera þessara áhrifavalda haft? 

Sú staðreynd að yfirstandandi loðnuvertíð skilar líklega um 65 milljörðum í tekjur fyrir þjóðarbúið, stuðlar að jákvæðum viðskiptajöfnuði við útlönd og skapar vinnu og afleiddar tekjur ætti að vera okkur öllum kunn.

Jafnvel þó að loðnan haldi fá partý og myndist ekkert sérstaklega vel þá er hún áhrifavaldur í íslensku samfélagi. Við ættum öll að skilja mikilvægi hennar og áhrif. Hið sama á við um fjöldann allan af öðrum atvinnugreinum og verðmætum sem við framleiðum í íslensku atvinnulífi. 

Ræðum þetta oftar og setjum hlutina í samhengi. Rifjum upp söguna um eggið og hænuna. Lífsgæðin verða ekki til í tómarúmi.

Höfundur er viðskiptafræðingur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Umræðan

Sjá meira


×