Mikil umfram eftirspurn var í fagfjárfesta útboði Bankasýslunnar á tæplega fjórðungs hlut ríkisins í Íslandsbanka sem hófst í gær og lauk sex í morgun.
Velflestir lífeyrissjóðir og verðbréfasjóðir hér sýndu útboðinu áhuga ásamt erlendum fjárfestum.
Söluverð á hvern hlut var 117 kr. en Bankasýslan, Verðbréfamiðlun Íslandsbanka, JP Morgan og Citigroup sáu m.a. um verðmatið.
Fram kemur í upplýsingum frá Bankasýslunni að endanleg ákvörðun um verðið hafi verið í höndum fjármálaráðherra.
Athygli hefur vakið að markaðsverð á hvern hlut í bankanum í Kauphöllinni í gær var hærra eða 122 kr. á hvern hlut og hafa þeir greiningaraðilar sem fréttastofa hefur rætt við í dag sagt að óánægju gæti vegna afsláttarins einkum þar sem umfram eftirspurn hafi verið eftir hlutum. Einhver tilboð hafi verið hærra en þetta verð. Þá hækkaði verð í bankanum í dag um tvö prósent.
Ríkið fær með sölunni tæplega 53 milljarða króna en hefði fengið um tveimur milljörðum hærra verð hefði markaðsgengi dagsins í gær gilt.
Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR telur söluverð á hlutum ríkisins í bankanum í fyrra og núna óeðlilegt.
„Þetta er enn einn skandall fjármálaráðherra, að gefa fjárfestum ríflegan afslátt af kaupverði og selja eignir ríkisins á undirverði. Það þarf að skoða og rannsaka af hverju verið er að selja hlut ríkisins með afslætti að næturlagi. Þá er vert að benda á að verð á hlutabréfum í bankanum hefur hækkað um 60% frá því ríkið seldi þriðjungs hlut í honum fyrir tíu mánuðum síðan. Sex erlendir fjárfestar seldu til að mynda í bankanum nokkrum dögum eftir fyrra útboðið með gríðarlegum hagnaði. Í heild hefur almenningur nú þegar orðið af tugum milljarða króna hefði bankinn verið seldur á réttu verði í fyrra útboðinu og því sem fór fram í gær. Almenningur hlýtur að krefjast þess að fjármálaráðherra segi af sér, þetta er bara spilling,“ segir Ragnar.
Með viðskiptunum fer hlutur ríkissjóðs í bankanum úr 65,0 í 42,5 prósent. Íslenska ríkið er í fyrsta skipti frá bankahruni orðið minnihlutaeigandi í viðskiptabönkunum þremur eftir söluna.