Ármanni tókst loks að leggja Sögu

Snorri Rafn Hallsson skrifar
saga ármann

Fyrir leikinn var Ármann í 4. sæti deildarinnar enda hefur Ármann í síðustu umferðum lagt öflug lið á borð við Dusty, Þór og XY með örlitlum vandræðum þess á milli. Saga hefur staðið sig ágætlega upp á síðkastið en aftur á móti ekki unnið marga leiki heldur tapað þeim jafnan nokkuð tæpt.

Saga vann fyrri tvo leikina gegn Ármanni og það með engum smámun, 16–3 og 16–7. Því skal haldið til haga að mannskapur Sögu er örlítið breyttur á meðan Ármann hefur snúið aftur í sinn kjarnahóp. Gengi liðsins batnaði mikið við það og því gat allt gerst í Dust 2 í gærkvöldi.

Ármann hafði betur í hnífalotunni og kaus að byrja í vörn (Counter-Terrorists). Þreföld fella frá TurboDrake tryggði sögu þó sigur í fyrstu lotunni. Ármann svaraði um hæl í næstu lotu og fór fram úr Sögu í þægilegri lotu þar. Voru Sögumenn illa vopnaðir og gengu beint í flasið á Varg og Hundza.

Leikmenn Ármanns léku af miklu sjálfstrausti enda full innistæða fyrir því. Vargur nældi sér í ás og felldi alla leikmenn Sögu í sjöttu lotu þegar bæði lið voru fullvopnuð, og henti sögu enn og aftur í spar. Leikmenn Sögu gátu ekki stutt nægilega vel hver við annan framan af og nokkuð vantaði upp á hraðann og skipulagið.

Um miðjan hálfleik olli Saga töluverðum usla og náðu einni lotu til viðbótar en Ármann var á slíkri siglingu að ekkert fékk þá stöðvað. Fóru þeir óhræddir inn í einvígi, spiluðu vel saman á árásargjarnan hátt og beittu leiftursprengjum skipulega til að blinda andstæðingana.

Eftir langa tæknilega pásu kom Saga til baka af miklum krafti á longinu og vann tvær lotur áður en hálfleikurinn var úti. Útlitið var þó langt frá því bjart.

Staða í hálfleik: Ármann 11 – 4 Saga

Í þetta skiptið vann Ármann skammbyssulotuna. Því var fylgt eftir á snyrtilegan máta áður en Saga tók við sér og vann næstu tvær lotur hratt og örugglega. Þá tók Ármann leikhlé og ákvað að spara við sig í vopnakaupum til að kippa fjárhagnum í liðinn. Ármann tapaði þeirri lotu og hafði Saga þá unnið 3 lotur í röð og staðan orðin 13–7. Þó leikmenn Ármanns hefðu getað vopnast vel sá Saga við þeim og eyðilagði planið fyrir þeim.

Í stöðunni 13–9 var orðið við hæfi að tala um endurkomu, sem ekkert lát var á. Ármann þurfti að leika hratt til að koma sér í stöður og nýtti Saga það til að fella þá áður en þeim tókst að framkvæma aðgerðir síðar. Stemningin hjá Ármanni, sem liðið nýtir sér gjarnan til að valta yfir andstæðinginn var á þessum kafla í algjöru lágmarki þangað til í 25. lotu þegar þeim loks tókst að koma sprengjunni fyrir. Tæpara mátti það ekki vera þegar allir leikmenn liðsins féllu og ADHD rétt svo tókst ekki að aftengja sprengjuna áður en tíminn rann út.

Stemningin hélt áfram og setti Ármann allt púður í að ljúka leiknum með hvelli. Heiðarleg tilraun Sögu til að koma sér aftur inn í leikinn lifði ekki af fimmfalda fellu frá Ofvirkum í 27. lotu.

Lokastaða: Ármann 16 – 11 Saga

Það var því öflugur varnarhálfleikur sem skilaði Ármanni sigri þegar þeim loks tókst að sjá við Sögu. Í næstu umferð mætir Saga Þór þriðjudaginn 15. mars og föstudaginn 18. mars kvöld taka Kórdrengir á móti Ármanni. Sýnt verður frá leikjunum á Stöð 2 Esport og á Twitch síðu Rafíþróttasamtaka Íslands.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira